Henný Hraunfjörð hefur verið ráðin deildarstjóri Rjóðurs á Landspítala frá 1. júní 2020 til næstu fimm ára. Rjóður er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn.
Henný lauk BSc. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2004, meistaranámi í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 og diplómanámi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2013. Hún starfaði sem aðstoðardeildarstjóri á barnadeild BUGL árin 2006-2008 og á göngudeild BUGL sem hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri frá 2008 til 2017. Frá árinu 2017 hefur Henný starfað sem verkefnastjóri fyrst á skrifstofu kvenna- og barnaþjónustu og svo á skrifstofu aðgerðasvið.
Henný hefur verið gestakennari við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og tekið þátt í fjölda gæða- og umbótaverkefna innan Landspítala sem snúa m.a. að fjölskyldumiðaðri þjónustu, verklagi, skráningu og teymisvinnu.