Kæra samstarfsfólk!
Það fór vart fram hjá nokkrum að í byrjun vikunnar byrjaði að losna um ýmsar hömlur sem Covid-19 faraldurinn setti samfélaginu. Fleiri komu til vinnu og skóla og lífið hreyfðist aðeins aftur að því sem við höfum fram að þessu kallað eðlilegt. Við vitum þó að áfram verða talsverðar takmarkanir bæði í leik og starfi og sumt verður ekki samt. Vonandi berum við gæfu til að nota þetta einstaka tækifæri til að láta af einhverju og temja okkur nýjar venjur. Þó ekki væri annað en að við öll héldum áfram að stunda vandaðan handþvott þá væri gríðarmikið unnið því eins og öllum ætti nú að vera ljóst þá eru bestu smitvarnirnar beinlínis í okkar eigin höndum.
Landspítali brást leiftursnöggt við því ástandi sem skapaðist í faraldrinum, eins og ég hef áður rakið hér, og starfseminni var breytt hratt og örugglega til að mæta þeim þörfum sem samfélagið hafði. Það er áfram okkar hlutverk að mæta þeim þörfum sem nú eru að breytast, um leið og við erum tilbúin að snúa okkur aftur að viðbrögðum við vá sem að kann að steðja að. Hluti af því er að hefja aftur valaðgerðir og ljóst er að þar eru ærin verkefni framundan. Landspítali starfrækir 20 skurðstofur á degi hverjum við eðlilegar aðstæður og afköstin eru gríðarleg. Á Covid-19 tímanum þurftum við að draga verulega úr starfseminni en lífshótandi og bráðar aðgerðir voru að sjálfsögðu gerðar. Hins vegar varð 18% samdráttur hjá okkur vegna ástandsins og við gerðum 1.000 færri aðgerðir á þessu tímabili lokunar miðað við í fyrra. Þótt ekki hafi fjölgað mikið á biðlistum hjá okkur segir það litla sögu enda hefur fólk ekki haft tækifæri til komast til skoðunar sem er forsenda mats á þörf fyrir tiltekna aðgerð. Það er áríðandi að árétta að þegar talað er um valaðgerðir er átt við aðgerðir sem er unnt að skipuleggja eitthvað fram í tímann en eru nauðsynlegar. Valið snýst því ekki um hvort, heldur hvenær eru gerðar. Hér er um ýmis konar aðgerðir að ræða, stórar sem smáar. Hin dæmigerða valaðgerð er þó ekki lífsógnandi en getur valdið skertum lífsgæðum sem erfitt er að lifa með. Hér má t.d. nefna liðskiptaaðgerðir sem Landspítali mun leggja sérstaka áherslu á fram að hefðbundum sumarlokunum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, sem hefur haft í ýmsu að snúast undanfarið, ákvað að helga árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Þann 12. maí næstkomandi eru 200 ár liðin frá fæðingu frumkvöðulsins Florence Nightingale. Hún var ekki einungis upphafsmaður hjúkrunar sem fags heldur var það Nightingale sem barðist fyrir auknu hreinlæti og nýtingu tölfræðilegra upplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Fræg eru verk hennar á Krímskaga, þar sem hún umbylti aðstæðum sjúklinga á breskum herspítala með hreinlæti og hjúkrun og minnkaði dánartíðni um 40% Það er magnað að þessi grundvallaratriði hjúkrunar, sem Nightingale kynnti til sögunnar fyrir tæplega 200 árum, eru grunnurinn að því hvernig við komumst út úr þessum faraldri nú. Svo sannarlega er árið 2020 ár hjúkrunar þótt líklega hafi enginn búist við því að framlag hjúkrunar yrði jafn rækilega kynnt heiminum og raun ber vitni.
Að vanda er vika hjúkrunar hér á Landspítala af þessu verðuga tilefni í næstu viku þótt með öðru sniði sé en ætlað var í upphafi. Ég hvet alla landsmenn til að fylgjast með dagskránni sem Landspítali mun sjá til að verði varpað sem víðast.
Til hamingju öll!
Páll Matthíasson
Mynd: Florence Nightingale á Wikipedia.org