Nærri 50 spjaldtölvur eru komnar í notkun á Landspítala Landakoti og Vífilsstöðum í kjölfar söfnunar sem þrír starfsmenn gengust fyrir snemma í Covid-19 faraldrinum. Tilgangurinn var að auðvelda skjólstæðingum samskipti við sína nánustu vegna heimsóknarbanns.
Söfnunin á Karolina fund gekk vonum framar og voru keyptar 44 spjaldtölvur og að auki gaf Elko tvær til viðbótar. Vel á fjórða hundrað fyrirtæki og einstaklingar styrktu söfnina sem skilaði tæpum tveimur milljónum króna. Fyrir það fé var hægt að kaupa spjaldtölvurnar sem eru af gerðinni Lenovo Tab M10.
Helgu Atladóttir, deildarstjóri á útskriftardeild aldraðra L2, ein af þeim sem fór fyrir söfnuninni, segir að starfsfólkið á Landakoti sé ákaflega þakklátt fyrir það hversu vel tókst til og spjaldtölvurnar hafi komið að góðum notum. Þær eru komnar í notkun á Landakoti og Vífilstöðum ásamt heyrnartólum sem Icelandair gaf.
Á Landakoti er heildræn meðferð og endurhæfing aldraðra eftir alvarleg veikindi. Vegna Covid-19 er endurhæfing að mestu takmörkuð við hreyfingu og virkni á herbergi eða á deild. Heimsóknir hafa nú um nokkur skeið ekki verið leyfðar á Landakoti. Spjaldtölvur hjálpa til við að rjúfa einangrun með möguleika á myndspjalli við aðstandendur eða til að njóta dægrarstyttingar eða fræðslu- og afþreyingarefnis.