Reykjavík 29. apríl 2020
Ágæta starfsfólk Landspítala.
Með þessari kveðju vill Ráðgjafarnefnd Landspítala færa ykkur þakkir fyrir einstakt starf, einbeitni, dugnað og fórnarlund í þágu samfélagsins í vetrarlok og nú í byrjun sumars. Þið starfsfólk spítalans hafið verið í fremstu víglínu í baráttunni við ógnvænlega farsótt, sem herjað hefur á alla heimsbyggðina. Þið hafið hjúkrað, læknað, samglaðst og huggað við einstakar og erfiðar kringumstæður. Þið hafið mörg sett ykkar eigin heilsu í hættu við umönnun smitaðra einstaklinga. Auk þessa hefur allri stjórnsýslu og stoðþjónustu svo sem birgðastjórnun, þrifum, iðnaðar- og tæknistörfum, o.fl. verið sinnt af útsjónarsemi og stakri prýði. Í gegnum sterka samheldni hafa fjölmörg flókin verkefni verið snilldarlega af hendi leyst og starfsfólk spítalans getur með stolti borið störf sín saman við það sem best gerist í öðrum löndum. Engum blandast hugur um þá færni, þekkingu og fagmennsku sem einkennt hefur alla framgöngu ykkar á þessum erfiðu tímum. Fyrir allt þetta er þakkað.
Ráðgjafarnefndinni er ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi, áætlanir og rekstur spítalans. Nefndinni er jafnframt ætlað að endurspegla viðhorf almennings í landinu til starfseminnar. Þá talar hún einnig máli spítalans gagnvart stjórnvöldum. Ykkar framganga gerir þann hluta verksins í senn léttari og ánægjulegri. Okkur nefndarmönnum er það sannarlega heiður að fá að vera í liði með starfsfólki Landspítala háskólasjúkrahúss.
Með bestu kveðju og ósk um áframhaldandi velfarnað í ykkar mikilvægu störfum,
Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands (formaður)
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (varaformaður)
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ
Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu
Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðumaður Hjartaverndar
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands