Frá framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala um vísindarannsóknir vegna COVID-19:
Með leyfi Landspítala og Vísindasiðanefndar hefur þegar verið hafist handa við metnaðarfullar vísindarannsóknir vegna COVID-19 faraldursins enda um einstakt tækifæri að ræða til þess að skilja betur eðli sjúkdómsins og til þess að leita að bestri mögulegri meðferð.
- Landspítali hefur stofnað sérstakan vinnuhóp sem heldur utan um öll verkefni sem fjalla um vísindarannsóknir og gæðaþróun vegna COVID-19 sjúkdóms.
- Að gefnu tilefni skal áréttað að Landspítali leyfir ekki neins konar vísindarannsóknir á sjúklingum nema fyrir liggi formlegt leyfi Vísindasiðanefndar um hverja slíka rannsókn fyrir sig. Að auki ber rannsakendum að óska eftir leyfi vísindarannsóknanefndar Landspítala (vrn@landspitali.is) hyggist þeir hefja vísindarannsókn innan spítalans.
- Landspítali beinir þeim tilmælum til vísindamanna og samstarfsaðila þeirra að stilla í hóf yfirlýsingum um hugsanlegan ávinning nýrra lyfja til meðferðar gegn COVID-19 sjúkdómi. Slíkar yfirlýsingar eru til þess fallnar að skapa óróa meðal sjúklinga og starfsfólks, sem ekki er á bætandi um þessar mundir.