Sérfræðingar í hjúkrun og lækningum á Landspítala hafa sett saman ráðleggingar til almennings um mikilvægi innihaldsríks samtals um á erfiðum stundum, ekki síst tímum eins og fólk er að upplífa núna:
Á tímum COVID-19 heimsfaraldurs verðum við, starfsfólk Landspítala, mjög mikið vör við að sjúklingar og aðstandendur þeirra upplifi óöryggi og ótta. Margir eru uggandi og ýmsar spurningar vakna: „Hvað ef ég fæ veiruna?“, „Hvað ef ég verð lífshættulega veik/ur?“. Sumir hafa jafnvel tjáð okkur að þeir telji sig eða ástvini sína ekki munu lifa slík veikindi af vegna alvarlegra undirliggjandi veikinda.
Af samtölum við skjólstæðinga okkar síðustu vikur er reynslan sú að aldraðir einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma óttast ekki COVID-19 sín vegna. Þeim er meira umhugað um fólkið sitt. Í COVID-19 faraldrinum ríkir mikil óvissa og margir upplifa sig hafa litla sem enga stjórn á aðstæðum sínum. Við hvetjum alla til að ræða þessi mál við sína nánustu. Besta ráðið til að létta á áhyggjum getur verið að ræða þær opinskátt. Þó það hljómi ógnvekjandi að ræða óhugsandi atburði þá getur verið hughreystandi að ræða „hvað ef“ og deila eigin viðhorfum til lífs og dauða með sínum nánustu.
Á tímum sem þessum er sérstaklega mikilvægt fyrir einstaklinga og fjölskyldur að eiga samtöl um hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Við viljum hvetja fólk til að íhuga fyrirfram óskir um meðferð í alvarlegum veikindum. Þetta á við hvort sem um er að ræða COVID-19 veikindi eða önnur. Hið fornkveðna er gagnlegur leiðarvísir: „Ég vona það besta en bý mig undir það versta.“
Notum páskana í samveru með okkar nánustu. Tölum um það sem skiptir máli og hlýðum Víði!
Tillaga að gagnlegum hugleiðingum:
- Hvað skiptir mig mestu máli í mínu lífi?
- Hvaða færni/getu get ég ekki hugsað mér að lifa án?
- Hvaða aðstæður myndi ég ekki vilja lifa við?
- Hvernig myndi ég vilja deyja? Hvar og hverja myndi ég vilja hafa hjá mér?
- Hvaða læknisfræðileg inngrip myndi ég ekki kæra mig um ef mér stæðu þau til boða?
- Hvernig vil ég alls ekki deyja?
- Hver væri best/ur til þess fallin/n að tala mínu máli ef ég gæti það ekki sjálf/ur?
- Ef ég yrði bráðkvaddur/-kvödd, myndi ég vilja að reynt yrði að lífga mig við?