Frá starfsfólki dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga 11B:
Í ljósi Covid-19 faraldurs sem nú geisar hefur starfsfólk dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga 11B ákveðið að bregðast við með því að auka þjónustu við þá einstaklinga sem eru í meðferð á deildinni og bjóða upp á símaþjónustu og ráðgjöf í framhaldi af þjónustutíma deildarinnar.
Tilgangurinn er að efla öryggi skjólstæðinga deildarinnar sem og aðgengi þeirra að sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki og ráðgjöf.
Um er að ræða símaráðgjöf fyrir þá sjúklinga sem eru í krabbameinslyfjameðferð á Landspítala og þurfa ráðgjöf um bráð einkenni sem geta komið upp tengt krabbameinsmeðferð og/eða aukaverkunum tengdum henni og geta ekki beðið til næsta dags.
Símaráðgjöfin verður í boði alla virka daga mánudaga til föstudaga milli klukkan 16:00 og 22:00. Hringt er í skiptiborð spítalans í síma 543 1000 sem kemur erindinu áfram til vakthafandi hjúkrunarfræðings.
Oft er hægt að veita ráðgjöf í síma um hvernig bregðast megi við einkennum og aukaverkunum sem geta fylgt sjúkdómnum og/ eða meðferðinni. Ef þörf er á frekara mati mun einstaklingnum vera boðið að koma í skoðun á göngudeild daginn eftir eða vísað á bráðamóttöku ef um alvarleg veikindi er að ræða sem þola ekki bið.
Þetta er viðbót við þá þjónustu sem hingað til hefur verið í boði fyrir krabbameinsgreinda sem fá meðferð á Landspítala og er vonast til að með þessu megi tryggja ráðgjöf og skjótari meðferð einkenna þannig að sjúklingar upplifi öryggi varðandi aðgengi að þjónustu spítalans.
Vefsíða dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga 11B