Haraldur Ágúst Sigurðsson og Helga Kristinsdóttir lyfjafræðingar hafa verið ráðnir rekstrarstjórar klínískrar lyfjaþjónustu á Landspítala.
Hlutverk rekstrarstjóra er að þróa og leiða ný þjónustuteymi til að veita klínískum deildum Landspítala heildstæða lyfjaþjónustu. Rekstrarstjórar heyra undir deildarstjóra lyfjaþjónustu.
Þann 1. apríl 2020 verða skipulagsbreytingar í lyfjaþjónustu sem miða að þróun heildstæðrar lyfjaþjónustu fyrir klínískar deildir Landspítala. Markmið lyfjaþjónustu er að bæta öryggi sjúklinga og létta undir með klínískum deildum spítalans. Sýn lyfjaþjónustu til framtíðar er að þjónustuteymi lyfjaþjónustu munu veita meðferðarsviði og aðgerðarsviði sérsniðna og heildstæða þjónustu í náinni samvinnu við klínískar deildir.
Helga Kristinsdóttir lauk meistaranámi í lyfjafræði árið 2000, BEd árið 1994 og diplómanámi í jákvæðri sálfræði árið 2015. Helga hefur starfað sem lyfjafræðingur á Landspítala frá árinu 2015 og lauk sérnámi í klínískri lyfjafræði árið 2019.Hún hefur áralanga reynslu af stjórnun og stefnumótun innan lyfjageirans bæði innanlands og á alþjóðavísu.
Haraldur Ágúst Sigurðsson lauk meistaranámi í lyfjafræði árið 2000, MBA prófi frá HÍ 2006 og meistaranámi í fjármálum fyrirtækja við SDA Bocconi School of Management í Mílanó, árið 2007. Haraldur hefur starfað sem lyfjafræðingur hjá Lyfju, Lyfjum og heilsu, sem markaðstengill lyfja frá AstraZeneca, SPRON Verðbréfum, verið prófdómari í lyfjatæknanámi í Noregi og hjá Apotek1 Gruppen AS síðastliðin tæp tíu ár.