Kæra samstarfsfólk!
Síðustu vikur hafa vægast sagt verið annasamar hjá okkur öllum. Við höfum umbylt starfsemi spítalans til að mæta þeirri vá sem Covid-19 sjúkdómurinn er. Á landsvísu er neyðarstig en viðbragðsáætlun Landspítala fyrir farsóttir gerir ráð fyrir hættustigi og er farsóttarviðbrögðum spítalans á meðan stýrt af viðbragðsstjórn (forstjóri og 5 framkvæmdastjórar) og farsóttanefnd.
Varnir Íslands í þessari baráttu felast í afar vandaðri áætlun sóttvarnaryfirvalda um greiningu og rakningu smits, sóttkví og loks einangrun smitaðaðra. Þar tekur Landspítali við keflinu og sinnir öllum smituðum í öflugri göngudeild Covid-19. Markmiðið er að veita fólki stuðning í heimahúsi með fjarheilbrigðisþjónustu, um leið og ástand smitaðra er áhættugreint. Þannig er sérstaklega fylgst með þeim sem er ekki að batna og unnt er að kalla fólk inn til sérstakrar skoðunar á göngudeildinni í Birkiborg eða í gámum við bráðamóttökuna. Þar reynum við að sinna sjúklingnum með stuðningsmeðferð þannig að hann komist aftur heim og nái að jafna sig þar. Með þessari skipulögðu aðferð viljum við hindra innlagnir eins og kostur er enda heimilið oftast besti staðurinn til að vera í einangrun og jafna sig. Það er þó ekki gert nema eftir vandað læknisfræðilegt mat og ef sjúklingur þarfnast innlagnar höfum við helgað smitsjúkdómadeild A7 þessum sjúklingahópi. Ljóst er að það mun þó ekki duga og þá taka aðrar deildir við sjúklingum, eins og sést á flæðiriti sem sýnir ferlið (ppt). Loks erum við búin að undirbúa gjörgæslumeðferð þeirra sem veikjast alvarlegast og höfum gert ráð fyrir ýmsum sviðsmyndum hvað það varðar.
Samhliða þessu rekum við áfram hluta af hefðbundinni starfsemi, eftir því sem það er unnt. Við tökum áfram á móti bráðveikum sjúklingum á bráðamóttökunni og þangað koma raunar einnig sjúklingar sem kunna að vera með ógreindan Covid-19 sjúkdóm. Við sinnum að sjálfsögðu hefðbundinni spítalaþjónustu við veikt fólk svo sem við hjartveika, krabbameinssjúka, geðsjúka o.s.frv. Einnig gerum við að sjálfsögðu þær aðgerðir sem alls ekki geta beðið. Það er ljóst að þegar dregur úr viðbúnaði vegna Covid-19 verður ærið verk að takast á við biðlista sem munu þá hafa lengst umtalsvert.
Það skipti sköpum í upphafi undirbúnings vegna farsóttarinnar að stór hópur einstaklinga sem hjá okkur hafði beðið eftir hjúkrunarrými fékk rými á hinu nýopnaða hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Við það gjörbreyttist staða legudeilda spítalans sem geta nú tekið við sjúklingum sínum af bráðamóttökunni en þar liggja nú engir sjúklingar á göngum eða bíða óhóflega lengi eftir innlögn. Þetta hefur einnig aukið sveigjanleika legudeildanna til að taka við sjúklingahópum sem öllu jafna liggja á þeim deildum sem við nú helgum Covid-19 sjúklingum. Við höfum einnig átt afar góða samvinnu við samstarfssjúkrahús okkar og í gær skrifuðum við Anna Stefánsdóttir, starfandi forstjóri Reykjalundar, undir mikilvægan samstarfssamning um flutning sjúklinga í virkri meðferð þangað.
Landspítali hefur sýnt gríðarlegan sveigjanleika í þessum mikla undirbúningi og óhætt er að segja að allir starfsmenn hafa lagt sitt af mörkum og síðan talsvert til viðbótar! Fyrir það er ég ykkur afskaplega þakklátur.
Áfram gakk og takk!
Páll Matthíasson