Sérstök Covid-19-göngudeild hefur tekið til starfa á Landspítala og sinnir sjúklingum sem greinst hafa með kórónuveiruna Covid-19. Göngudeildin fær á næstu dögum aðstöðu í húsinu Birkiborg á lóð Landspítala Fossvogi. Yfirlæknir göngudeildarinnar er Ragnar Freyr Ingvarsson og deildarstjóri er Sólveig Sverrisdóttir. Þeim til aðstoðar eru þau Tómas Þór Ágústsson yfirlæknir og Geirný Ómarsdóttir deildarstjóri. Sjá mynd af þeim neðst.
Samhliða framkvæmdunum við Birkiborg hefur verið byggð upp fjarheilbrigðisþjónusta við sjúklinga í einangrun heima við. Nýja göngudeildin fæst við aðkallandi vandamál og er hluti af víðtækri ferliþjónustu Landspítala vegna Covid-19. Ef nauðsynlegt reynist að grípa til innlagna hefur Landspítali til að mynda helgað smitsjúkdómadeild A7 í Fossvogi sjúklingum í Covid-19-einangrun og mun bæta við rúmum í samræmi við þörf. Á sama tíma leggur sýkla- og veirufræðudeild Landspítala nótt við nýtan dag í greiningu Covid-19-sýna.
Þverfaglegt teymi
Sístækkandi hópur lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala sinnir nú ráðgjafarþjónustu og símaeftirliti hjá því fólki sem greint hefur verið með Covid-19 og er heima í einangrun. Nú er þessi starfsmannahópur á þriðja tug talsins og fer vaxandi eftir því sem fleiri greinast. Auk þessa hóps munu fjölmargir læknar og hjúkrunarfræðingar starfa við nýju göngudeildina í Birkiborg undir stjórn smitsjúkdómalækna Landspítala.
Öyggi sjúklinga hámarkað
Markmið þjónustunnar er að veita þessum sjúklingahópi bestu mögulegu þjónustuna á viðeigandi stigi, meðal annars með sérhæfðri fjarheilbrigðisþjónustu, ráðgjöf og stuðningi heima við, svo að ekki þurfi að koma til innlagnar. Með þessu er verið að tryggja öryggi sjúklinga og hámarka þann tíma sem þeir geta verið heima. Tæplega 600 einstaklingar hafa verið greindir með staðfest smit hér á landi og um meirihluti þeirra er þjónustaður af deildinni. Stærsti hluti símaþjónustu göngudeildarinnar er í Fossvogi sem stendur en tök eru á því að stækka hana á 4. hæð á aðalskrifstofum spítalans í Skaftahlíð.
Ferlið í hnotskurn
Verklagið hefur reynst vel og nýtur ánægju meðal sjúklinga. Þegar sjúklingur hefur greinst með jákvætt veirupróf er hringt frá Landspítala. Fyrsta símtal er frá lækni sem fer yfir heilsufarssögu og möguleika á undirliggjandi vandamálum, metur núverandi ástand og einkenni. Þar með hljóta sjúklingar strax áhættumat. Í kjölfarið er eftirlit í höndum hjúkrunarfræðinga göngudeildarinnar í samráði við lækna. Fylgst er með líðan sjúklinga símleiðis með reglubundnum hætti og mat lagt á hvort þörf er á vitjun heim til þeirra eða hvort þeir þurfa að koma í formlegra mat og skoðun á göngudeildinni á Birkiborg með blóðprufum og röntgenmyndatöku. Þar tekur við sjúklingum sérhæft teymi lækna og hjúkrunarfræðinga.