Hin árlega Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum var haldin föstudaginn 21. febrúar 2020 á Nauthól í Reykjavík. Sérnámslæknar í skipulögðu framhaldsnámi í lyflækningum á Landspítala kynntu þar rannsóknarverkefni sín. Ágrip af verkefnum fylgja hér, sjá hlekk neðst.
Alls voru 19 verkefni til umfjöllunar á ráðstefnunni. Þetta árið hélt Runólfur Pálsson, prófessor í nýrnasjúkdómum og nýskipaður forstöðumaður lyflækninga á meðferðarsviði, heiðursfyrirlesturinn í lok ráðstefnunnar og dr. Einar S Björnsson, prófessor í lyflæknisfræði, hvatningarorð í upphafi dags. Uppskerunni var síðan fagnað með samveru að ráðstefnu lokinni. Góð aðsókn að ráðstefnunni af sérfræðilæknum og fleiri vísindamönnum hvetur verulega unga vísindafólkið, vísindamenn framtíðarinnar.
Dr. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor, umsjónarmaður vísindaverkefna sérnámslækna á lyflækningum, sá um skipulagningu ráðstefnunnar eins og síðastliðin ár. Ráðstefnan var styrkt af Vistor, Sanofi og Novo Nordisk.
Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum 2020 - ágrip
Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum 2020 - dagskrá
Ljósmyndir: Hópmynd af sérnámslæknum, Runólfur Pálsson, prófessor og forstöðumaður lyflækninga, og Hólmfríður Helgadóttir nýdoktor