Næringardagur Landspítala 2020 í Hringsal 20. febrúar var tileinkaður næringarmeðferð við sjúkdómum og kvillum í meltingarvegi.
Fjallað var um hvernig ný þekking á starfsemi meltingarvegar, meðal annars á því með hvaða hætti næringarefni frásogast, hefur stuðlað að auknum skilningi á kvillum sem geta komið fram við neyslu ýmissa efna úr mat. Farið var yfir stöðu þekkingar um notagildi góðgerla við mismunandi aðstæður auk þess sem kynntar voru fyrstu niðurstöður rannsóknar á árangri næringarmeðferðar sem felur í sér skerðingu á fæði sem inniheldur FODMAP's (fermentable oligo-, di-, mono-saccharides and polyols) sem meðferð við iðraólgu (IBS, irritable bowel syndrome). Sérstaklega var fjallað um næringarmeðferð bólgusjúkdóma í meltingarvegi (IBD, inflammatory bowel disease) og rifjaður upp sá tími þegar talið var að mjólkursykuróþol væri ekki til á Íslandi.
Að lokum voru gefin nokkur dæmi um hvernig einstaklingar hafa öðlast nýtt líf eftir að hafa fengið viðeigandi næringarmeðferð hjá næringarfræðingi.