Tómas Þór Ágústsson, sérfræðingur í lyf- og innkirtlalækningum, hefur verið ráðinn yfirlæknir sérnáms og framhaldsnáms í lækningum til 5 ára en sú staða heyrir undir framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar.
Tómas Þór lauk embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands 2001. Hann stundaði framhaldsnám í Bretlandi 2002-2012. Hann hefur áralanga reynslu af kennslu- og þjálfunarmálum lækna á alþjóðavísu og hefur starfað sem formaður framhaldsmenntunarráðs lækninga frá 2018.
Sem yfirlæknir sérnáms mun Tómas Þór meðal annars hafa yfirumsjón með störfum nýráðinna kennslustjóra lækninga í hinum ýmsu sérgreinum. Kennslustjórahópurinn starfar náið saman og tekur þátt í fundum framhaldsmenntunarráðs lækninga en þar sitja auk kennslustjóranna, deildarforseti læknadeildar, fulltrúi Félags almennra lækna og fulltrúi heilsugæslunnar.