Alþjóðlegi GoRed dagurinn er föstudagur 7. febrúar 2020 og þá hefur starfsfólk fyrirtækja og stofnana verið hvatt til þess að klæðast rauðu eða bera rauða fylgihluti eða skart.
Þetta er ellefta ár GoRed vitundarvakningarinnar um hjartasjúkdóma kvenna. Þemað er að þessu sinni áhættumeðganga / meðgöngusykursýki og hjartasjúkdómar sem möguleg afleiðing þess fyrir móður og barn síðar á lífsleiðinni.
GoRed blaðið fylgir Fréttablaðinu 7. febrúar og í því verða viðtöl við leika og lærða um nauðsyn þess að fræða og upplýsa mæður og ennfremur nauðsyn þess að þær mæður sem lenda í áhættumeðgöngu fái viðeigandi eftirfylgni með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma.
GoRed er samstarfsverkefni hjartadeildar Landspítala, Neistans, Hjartaheilla, Heilaheilla og fagdeildar hjúkrunarfræðinga.