Verkefnið „Tengsl óeðlilegs blóðhags við bráða fylgikvilla og langtíma útkomu eftir skurðaðgerðir“ hreppti nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2020 sem Guðni Th. Jóhannesson afhenti á Bessastöðum 29. janúar. Það var unnið af Halldóri Bjarka Ólafssyni, nema í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hans var Martin Ingi Sigurðsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala og kennari við Háskóla Íslands.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru árlega veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verðlaunin voru fyrst veitt í ársbyrjun 1996 og hafa síðan verið veitt á ári hverju við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Allir nemendur sem skila inn lokaskýrslu fyrir auglýstan frest koma til greina við veitingu verðlaunanna. Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru 5-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins sem eru fimm og á sviði heilbrigðisvísinda, verkfræði, tæknivísinda og raunvísinda, náttúru- og umhverfisvísinda, hugvísinda og félagsvísinda.
Í verkefni Halldórs Bjarka voru tengsl milli breytileika í stærð rauðra blóðkorna og skamm- og langtíma dánartíðni eftir skurðaðgerðir könnuð en slíkur breytileiki er mældur fyrir nær allar aðgerðir. Til þess voru upplýsingar úr íslenska aðgerðargagnagrunninum notaðar en hann inniheldur upplýsingar um hartnær 40 þúsund skurðaðgerðir á Landspítala.
Í ljós kom að einstaklingar með aukinn breytileika höfðu hærri dánartíðni í kjölfar skurðaðgerða samanborið við viðmiðunareinstaklinga með eðlilegan breytileika. Þessum áhrifum er mögulega miðlað gegnum langvinnt bólguástand eða vannæringu sem hefur áhrif á stærðardreifnina.
Niðurstöðurnar benda til þess að mæling á stærðardreifni rauðra blóðkorna megi nota til að áhætttuflokka einstaklinga fyrir aðgerð. Næstu skref verkefnisins miða að því að kanna hvort unnt sé að hafa áhrif á stærðardreifnina eða nota hana til að fylgjast með árangri inngripa sem ætlað er að bæta horfur aðgerðarsjúklinga, svo sem forhæfingu eða leiðréttingu næringarástands fyrir aðgerð.
Vonast er til að niðurstöðurnar muni bæta horfur aðgerðasjúklinga sem mun þá hafa mikinn ávinning í för með sér fyrir þá sem og heilbrigðiskerfið sjálft.
Mynd: Halldór Bjarki Ólafsson og Guðni Th. Jóhannesson.