Íslenska heilbrigðiskerfið býr sig nú undir að fást við afleiðingar sýkinga af völdum kórónaveirunnar 2019-nCoV sem hefur nú þegar verið greind hjá þúsundum einstaklinga, einkum í Kína. Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst á Íslandi. Langflest tilfellin eru upprunnin í Kína. Þeir einstaklingar sem hafa dáið hafa hingað til allir verið með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.
Nánari upplýsingar í síma 1700
Fólk sem er með einkenni kvefs, hita eða inflúensu og hefur tengsl við Kína eða hefur ferðast þangað síðustu tvær vikurnar ætti að leita þegar í stað til næstu heilsugæslu. Munið hins vegar að hringja á undan því í sumum tilvikum þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að taka á móti fólki þar. Ekki mæta fyrirvaralaust. Einnig er hentugt að hafa samband við símanúmerið 1700 og fá þar nánari upplýsingar en þar er opið allan sólarhringinn.
Ekki koma fyrirvaralaust á bráðamóttöku ef grunur leikur á alvarlegri sýkingu
Ef fólk þarf að leita á bráðamóttöku vegna alvarlegri einkenna er mikilvægt að hringja áður á deildina (543 1000), láta vita af sér og fá nákvæmar leiðbeiningar áður en komið er þangað. Landspítali er vel í stakk búinn til að fást við þetta verkefni.
Frá Embætti landlæknis um kórónaveiruna
Hinn 27. janúar 2020 var búið að staðfesta sýkingu af völdum kórónaveirunnar 2019-nCoV hjá um 2.800 einstaklingum og um 80 einstaklingar hafa látist (2,8%). Auk þess eru upplýsingar um alvarleg veikindi hjá fjölda einstaklinga.
Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að veiran muni berast hingað til lands og því mikilvægt að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands.
Viðbrögð yfirvalda hér á landi beinast að því að hindra sem mest útbreiðslu veirunnar innanlands, tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir veika einstaklinga og viðhalda nauðsynlegri starfsemi innanlands.
Kórónaveirur eru algeng orsök veikinda
Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar.
Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ennþá er ekki til bóluefni gegn þessari veiki.
Beitið almennu hreinlæti til að forðast smit
Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti svo sem handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu.
Ferðalangar á svæðum þar sem þessi veiki hefur komið upp ættu sömuleiðis að forðast umgengni við lifandi og dauð dýr, sérstaklega dýramarkaði, og veika einstaklinga.
Handhreinsun eftir snertingu við yfirborð sem margir koma við, til dæmis á flugvöllum, getur einnig dregið úr smithættu. Nefna má yfirborð líkt og handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna.
Upplýsingar til ferðamanna
Sóttvarnalæknir mælir með að ferðamenn sleppi ónauðsynlegum ferðalögum til Kína, þar sem faraldur nýrrar kórónaveiru 2019-nCoV er í gangi. Ekki er vitað til að faraldur hafi farið af stað annars staðar en í Kína. Einnig vill sóttvarnalæknir hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega þá sem eru í Kína og annars staðar þar sem sýkingar af völdum 2019-nCoV hafa verið staðfestar að
- fylgjast vel með ferðatakmörkunum sem Kínverjar hafa gert innanlands og aðlaga ferðaáætlanir eins og þurfa þykir.
- gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
- forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
- forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
- nota klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni og/eða hósta er að ræða og þvo hendur reglulega.
- láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.
Sjá nánar ítarlegar upplýsingar um kórónaveiruna 2019-nCoV hjá Embætti landlæknis