Dr. Helga Bragadóttir hjúkrunarfræðingur, prófessor og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala, hlaut inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna (American Academy of Nursing (AAN)) í október 2019.
Helga er fjórði hjúkrunarfræðingurinn á Íslandi til að hljóta inngöngu í akademíuna en inngöngunni fylgir nafnbótin Fellow of the American Academy of Nursing (FAAN). Áður höfðu dr. Ásta Steinunn Thoroddsen, dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir og dr. Helga Jónsdóttir hlotið inngöngu í AAN, allar prófessorar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Meðmælendur Helgu voru samstarfskonur hennar í Bandaríkjunum, dr. Beatrice Kalisch prófessor emeritus við University of Michigan og dr. Teddie Potter prófessor við University of Minnesota.
Bandaríska hjúkrunarakademían sem var stofnuð árið 1973 hefur það hlutverk að þjóna almenningi og hjúkrun og vera virkur þátttakandi í stefnumörkun heilbrigðisþjónustu. Félagar í AAN eru rúmlega 2.700 frá fjölmörgum löndum heims. Þeir sem hljóta inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna hafa með störfum sínum haft áhrif í hjúkrun og heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu og alþjóðlega. Rannsóknir Helgu á sviði hjúkrunarstjórnunar hafa snúist um gæði og öryggi þjónustunnar, nýtingu tækni í heilbrigðisþjónustu, vinnu og vinnuumhverfi í hjúkrun og síðustu 10 ár hefur Helga fyrst og fremst sinnt rannsóknum á gæðum hjúkrunar og teymisvinnu. Helga hefur haft umsjón með og kennt hjúkrunarstjórnun og forystu við Háskóla Íslands og á því sviði verið frumkvöðull í framsæknum kennsluaðferðum svo sem nýtingu tækninnar og hnattrænni nálgun. Í öllum verkefnum sínum hefur Helga lagt áherslu á þverfræðilegt og alþjóðlegt samstarf og hefur hún leitt og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum innanlands og alþjóðlega sem hafa leitt til umbóta á vinnu og vinnuumhverfi í hjúkrun og heilbrigðisþjónustu og þar með þjónustu við sjúklinga.
Helga útskrifaðist með BSc próf í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1986 og starfaði næstu ár við barnahjúkrun sem klínískur hjúkrunarfræðingur, hjúkrunarstjórnandi og kennari. Hún hélt síðar til Bandaríkjanna þar sem hún lauk MSc prófi í barnahjúkrun og hjúkrunarstjórnun og doktorsprófi í hjúkrunarstjórnun frá University of Iowa. Frá heimkomu úr framhaldsnámi árið 2000 hefur Helga starfað við stjórnun, kennslu og vísindi í Háskóla Íslands og Landspítala.