Mikið álag er á Landspítala núna, einkum bráðamóttöku í Fossvogi, vegna fjölda sjúklinga sem komið hefur til spítalans upp á síðkastið, einkum þó í dag, föstudaginn 15. nóvember 2019, í kjölfar alvarlegra umferðarslysa.
Fólk sem leitar á bráðamóttökuna má því gera ráð fyrir óvenju langri bið eftir þjónustu en sjúklingum er forgangsraðað eftir bráðleika. Búast má við að þeir sem ekki eru í bráðri þörf þurfi að bíða lengi eftir þjónustu eða að þeim verði vísað á heilsugæslustöðvar eða Læknavaktina.