Erla Bragadóttir hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings í lífeindafræði á rannsóknarkjarna.
Erla lauk prófi í lífeindafræði (áður meinatækni) frá Tækniháskóla Íslands árið 2003 og viðbótardiplóma í lífeindafræði frá HÍ árið 2012. Erla lauk MSc í lífeindafræði frá HÍ árið 2016 þar sem rannsóknarverkefni hennar fjallaði um mismunandi greiningarpróf fyrir mergæxli og forstig þess. Erla fékk sérfræðileyfi frá Embætti Landlæknis árið 2018 og hefur starfað sem lífeindafræðingur við Landspítala nánast óslitið frá því hún lauk námi við ýmis verkefni bæði tengd klínískri lífefnafræði og blóðmeinafræði.
Erla hefur tekið mikinn þátt í kennslu nemenda og samstarfsmanna bæði innan og utan stofnunar auk þess sem hún hefur haft umsjón með námskeiðum í klínískri lífeindafræði við Háskóla Íslands. Erla mun starfa sem kennslustjóri rannsóknarkjarna og hafa umsjón með hæfnisstjórnunarkerfi deildarinnar auk þess sem hún mun áfram sinna kennslustörfum innan og utan deildarinnar.
Eitt af verkefnum Erlu verður að halda utan um og leiðbeina nemum á deildinni auk þess sem rannsóknir, vísindi, kynningarstarf og jafningjafræðsla verður hluti af verkefnum hennar.