Krabbamein er þema norrænnar ráðstefnu læknanema í Reykjavík dagana 31. október til 3. nóvember 2019. Félag læknanema skipulagði ráðstefnuna.
Ráðstefnan ber heitið FINO (Federation of International Nordic Medical Students' Organizations) og er árlegur viðburður allra læknanemafélaga á Norðurlöndunum þar sem 10 læknanemar frá hverju landi koma saman. Ráðstefnan er haldin á Íslandi fimmta hvert ár. Markmiðið er að efla samstari landanna, deila reynslu og fræðast um eitthvað tiltekið málefni.
Þema ráðstefnunnar var m.a. valið í ljósi Nóbelsverðlauna í læknisfræði 2018. Markmiðið er að nálgast krabbamein frá sem flestum sjónarhornum og því verður dagskránni skipt niður í eftirfarandi viðfangsefni: Forvarnir - Meðferð - Líf með og eftir sjúkdóm.
Ráðstefnan ber heitið „Global Action Against Cancer: Join the fight!“ og hefur skipulagsnefnd Félags læknanema sett saman metnaðarfulla dagskrá. Meðal fyrirlesara eru Magnús Karl Magnússon prófessor, Unnur Valdimarsdóttir prófessor, Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir og Þórunn Rafnar vísindamaður hjá deCODE. Auk þess kemur fyrirlesari frá danska krabbameinsfélaginu og heldur opinn fyrirlestur, „Access to medicine“, um áskoranir varðandi kostnað og aðgengi að nýjum krabbameinslyfjum.
Fyrirlestrarnir verða að miklu leyti haldnir í Hringsal á Landspítala Hringbraut, þar á meðal opni viðburðurinn.
Kynningarbæklingur um ráðstefnuna