Í samræmi við nýtt skipurit sem tekur gildi 1. október hefur verið gengið frá ráðningu þriggja framkvæmdastjóra á þrjú klínísk svið Landspítala.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir verður framkvæmdastjóri meðferðarsviðs. Guðlaug Rakel er fædd árið 1961. Hún brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1986 og starfaði sem slíkur í 10 ár. Í kjölfarið sinnti hún ýmsum stjórnunarstörfum, m.a. í lyfjageiranum, sem hjúkrunarforstjóri á St. Jósefsspítala og sviðsstjóri hjúkrunar á Landspítala. Guðlaug Rakel hefur lokið MBA gráðu og bætt við sig þekkingu í lýðheilsuvísindum. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra bráðasviðs við stofnun þess árið 2009 og gegndi síðan starfi framkvæmdastjóra flæðisviðs frá 2014 til dagsins í dag.
Hlíf Steingrímsdóttir verður framkvæmdastjóri aðgerðasviðs. Hlíf er fædd 1966 og lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Eftir kandídatsár og störf sem deildarlæknir stundaði Hlíf sérfræðinám í lyflækningum og blóðlækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Hlíf hefur starfað samfellt á Landspítala frá árinu 2000, sem sérfræðilæknir í blóðlækningum og sem yfirlæknir blóðlækninga. Frá 1. september 2014 til dagsins í dag hefur hún gegnt starfi framkvæmdastjóra lyflækningasviðs.
Jón Hilmar Friðriksson verður framkvæmdastjóri þjónustusviðs. Jón Hilmar er fæddur árið 1962 og útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1988. Jón Hilmar stundaði framhaldsnám í barnalækningum, nýburagjörgæslu og barnagjörgæslu í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 1991-1998, og starfaði eftir það sem sérfræðingur og yfirlæknir í Bandaríkjunum til ársins 2007. Hann hefur starfað á Landspítala frá árinu 2007, og tók við starfi framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs í maí 2009. Því starfi gegndi hann til ársins 2016 þegar hann fluttist yfir í starf framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs sem hann hefur gegnt til dagsins í dag. Frá 2011 hefur hann jafnframt borið ábyrgð á heilbrigðis- og upplýsingatækni spítalans.