Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur útnefnt 17. september 2019 alþjóðadag um öryggi sjúklinga. Tilgangurinn er að auka vitund heimsbyggðarinnar um öryggi sjúklinga og hvetja til almennrar samstöðu um að efla öryggismenningu í heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðisþjónusta á að vera hættulaus. Samt verða alvarleg atvik á heilbrigðisstofnunum um allan heim á hverjum degi. Mörg atvik er hægt að fyrirbyggja með meiri öryggisvitund stjórnenda, starfsfólks og sjúklinga. Öryggi sjúklinga varðar alla. Landspítali lætur sig öryggi varða í daglegu starfi og tekur þátt í alþjóðakynningunni með opnu húsi í Örk hermisetri og málþingi um byltuvarnir.
- Dagana 16. til 20. september er alþjóðleg hermivika í heilbrigðisþjónustu á vegum Society for Simulation in Health Care (SSH). Af því tilefni verður opið hús í Örk, nýju hermisetri Landspítala í Skaftahlíð 24, kl. 12:00-13:00 frá mánudegi til fimmtudags. Hermiþjálfun heilbrigðisstarfsfólks stuðlar að auknu öryggi, skilvirkni og árangri í heilbrigðisþjónustu. Notaðir eru sýndarsjúklingar og líkt eftir aðstæðum á vettvangi til að æfa samvinnu, viðbrögð og tækni til að vekja þátttakendur til umhugsunar um atriði sem skipta máli fyrir öryggi sjúklinga.
Kynning á Örk hermisetri - Þriðjudaginn 17. september verður þverfaglegt málþing um byltuvarnir í Hringsal á Landspítala Hringbraut. Byltur eru ein af algengustu orsökum innlagna aldraðra á bráðasjúkrahús og ein af ástæðum heilsubrests í þessum aldurshópi. Skipuleggjendur vona að þverfaglegt samstarf leiði af sér hugmyndir að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn byltum. Skipuleggjendur, auk Landspítala, eru Beinvernd, Öldrunarfræðafélag Íslands, Félag lýðheilsufræðinga, Heilsugæslan og Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum. Málþingið er uppbókað en því verður einnig streymt á Facebooksíðu Landspítala.
Málþing um byltuvarnir