„Heilsa á flótta“ er yfirskrift málþings um heilbrigðisþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem haldið verður föstudaginn 11. október 2019 á Hótel Reykjavík Natura.
Landspítali stendur fyrir málþinginu til að ræða hvernig stofnanir sem koma að málum flóttafólks geta veitt því góða og tímanlega þjónustu.
Sérstakur gestur málþingsins er Julie Bebenishty hjúkrunarfræðingur sem hefur vakið athygli fyrir að efna til samráðs og samvinnu á milli hjúkrunarfræðinga í Miðausturlöndum þvert á trú, landamæri og þjóðerni.
Auk hennar munu fulltrúar stofnana sem veita þjónustu umsækjendum um alþjóðlega vernd á Ísland greina frá verkefnum sínum og stöðu þeirra, ásamt því að rýna í framtíðina.
Málþingið er skipulagt með hliðsjón af starfsemi Landspítala en er öllum opið.
Aðgangur fyrir starfsfólk Landspítala er ókeypis en gestir utan spítalans greiða 3.000 krónur.