Kæra samstarfsfólk!
Eins og ég hef fjallað um hér á þessum vettvangi ítrekað síðustu vikur og raunar mánuði er fjárhagsstaða spítalans alvarleg. Á þeirri stöðu eru ýmsar skýringar sem ég hef sömuleiðis áður rakið en stærstu liðirnir lúta eðli máls samkvæmt að launum, sem eru ríflega 70% af rekstrarkostnaði spítalans. Þar er helst til að taka að við teljum að eldri kjarasamningar sem ríkisvaldið hefur gert séu óbættir að hluta og skýrir það tæplega 1,4 milljarða af hallanum. Við höfum fært rök fyrir því að ríkið þurfi að grípa til aðgerða og leiðrétta þennan halla.
Engu að síður liggur fyrir að hagræðingaraðgerðir Landspítala verða mjög víðtækar og munu snerta alla þætti starfseminnar og starfsstéttir. Markmiðið er þó að hlífa klínískri þjónustu við beinum áhrifum. Við höfum þegar gripið í „neyðarhemilinn“ en þar er um að ræða aðgerðir sem skila strax lækkuðum rekstrarkostnaði á þessu ári. Sem dæmi verður rík aðhaldskrafa á stoðsvið og gert er ráð fyrir verulegri hagræðingu þar, þó nýleg tilraunaverkefni sem styðja við framlínuþjónustu haldi. Fjöldi annarra aðgerða eru í nánari útfærslu og koma til framkvæmda snemma á næsta ári enda snúa þær að kjörum og skipulagi sem segja þarf upp með löglegum fyrirvara.
Það er engin launung að vegna skorts á hjúkrunarfræðingum höfum við gripið til ýmissa mótvægisaðgerða, s.s. Hekluverkefnisins, með ágætum árangri. Því miður er fjármögnun spítalans með þeim hætti að við getum ekki haldið slíkum aukagreiðslum áfram. Þetta er afar sársaukafullt og ég geri mér fulla grein fyrir að þessi ákvörðun hefur valdið mörgum miklum áhyggjum og ég deili þeim. Þetta er þó ein fárra erfiðra aðgerða sem grípa þarf til sem ætla má að verði mætt með öðrum hætti. Við teljum að það ætti að vera í höndum kjarasamningsaðila að tryggja hjúkrunarfræðingum, sem ganga hér erfiðar vaktir og halda uppi rekstri spítalans, viðunandi laun. Nauðsynlegt að fram komi að við gerum ráð fyrir að þessar greiðslur haldi sér fram að kjarasamningum en afar mikilvægt er að þeir samningar taki á vinnuaðstæðum og kjörum vaktavinnufólks.
Góða helgi!
Páll Matthíasson