Kæra samstarfsfólk!
Eins og flest ykkar vita hefur undanfarið verið unnið að breyttu skipulagi Landspítala og hafa fjölmargir tekið þátt í þeirri vinnu.
Sjúklingurinn er ávallt í öndvegi og þær skipulagsbreytingar sem framundan eru hjá okkur hverfast um breyttar þarfir sjúklinga. Stórar áskoranir eru framundan í heilbrigðisþjónustu og framfarir í heilbrigðisvísindum krefjast þess að hryggjarstykki íslenskrar heilbrigðisþjónustu, Landspítali, móti skipulag starfseminnar þannig að falli að meginverkefnum okkar, með hliðsjón af heilbrigðisstefnu.
Við viljum byggja kjarna þjónustu í kringum tvo mikla meinvalda; hjarta- og æðasjúkdóma annars vegar, krabbamein hins vegar. Nýir meðferðar- og rannsóknarkjarnar eru í raun rétt handan við hornið og kalla á nýtt verklag. Því er mikilvægt að móta strax það verklag og tengja saman þær einingar sem eiga að starfa saman í nýjum byggingum.
Nýju skipulagi er ætlað að vinna gegn sílóum og straumlínulaga þjónustu um leið og við drögum úr sóun og kostnaði. Fyrst og síðast er áríðandi að tryggja framúrskarandi þjónustu við sjúklinga, í krefjandi umhverfi þar sem sífellt er kallað eftir meiri þjónustu fyrir fleiri sjúklinga á sama tíma og rík krafa er um kostnaðaraðhald. Þetta er ekki einfalt verkefni og nýtt skipurit leysir þetta ekki. Skipurit er hins vegar verkfæri sem skapar ramma um það skipulag og samvinnu sem við viljum sjá. Þannig getur það lagt línur.
Í gær kynnti ég á stórum stjórnendafundi drög að nýju skipuriti og í vinnunni í kjölfarið komu fram mjög gagnlegar ábendingar og tillögur sem unnið verður áfram með. Í næstu viku mun ég kynna fagráðum vinnuna sem fram hefur farið og má því búast við almennri kynningu undir lok næstu viku.
Segja má að um tvær bylgjur breytingar sé að ræða. Sú fyrri felst í umtalsverðum breytingum á framkvæmdastjórn spítalans þar sem framkvæmdastjórum verður fækkað um tæpan helming. Stærstu breytingarnar eru þær að sjö klínísk svið, rekstrarsvið og skrifstofa þróunar verða þrjú svið sem öll hafa klínískar megináherslur. Samhliða þessu fækkar sviðsskrifstofum úr 11 í 2-3 og mannauðs- og fjármálasvið breytast í skrifstofu mannauðsmála og skrifstofu fjármála. Framkvæmdastjórar (e. Senior Vice Presidents – senior VP´s) verða því 7 í stað 13 áður. Með breytingum á framkvæmdastjórn spítalans er ætlun mín m.a. að skerpa hlutverk framkvæmdastjóra og forstjóra í stefnumótun og heildaryfirsýn yfir hið umfangsmikla starf sem hér fer fram en jafnframt ber framkvæmdastjórnin heildarábyrgð á þjónustu og rekstri spítalans.
Síðari bylgja breytinganna, sem áhrif mun hafa á fleiri starfsmenn með beinum hætti, felst í spennandi þróun nýrra skipulagseininga. Þær mun heyra munu undir sviðin þrjú þar sem horft er sérstaklega til þjónustuþarfa sjúklingahópa og munu forstöðumenn (e. Vice Presidents – VP´s) vera leiðtogar sinna eininga og samhæfa verkefni þeirra í samvinnu við framkvæmdastjóra. Við munum nú á næstu vikum þróa þessar einingar áfram og gerum ráð fyrir að hefja undirbúning að ráðningu forstöðumanna síðar í haust.
Breytingar geta tekið mikið á og þeim fylgir óvissa. Þetta erum við öll meðvituð um og ég veit að mörg ykkar eru óviss um fyrirkomulag ykkar eininga. Við gerum ráð fyrir að innleiðingartímabil nýs heildarskipulags sé fram á næsta ár og staðan verður markvisst metin og skipulag bætt ef þess er þörf.
Framundan er nú úrvinnsla þeirrar vinnu sem fram fór á stjórnendafundinum í gær og eftir helgi mun ég kynna fagráðum og ráðgjafarnefnd spítalans stöðu mála. Í kjölfarið geri ég ráð fyrir almennri kynningu og nánari útskýringum og ég hlakka til að eiga við ykkur samstarf um þetta stóra mál. Ég minni á netfangið mitt, pallmatt@landspitali.is.
Góða helgi!
Páll Matthíasson