Kæra samstarfsfólk!
Þann 19. júní, þegar þess var minnst að 104 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, var sýningin „Hjúkrun í 100 ár“ opnuð við hátíðlega athöfn. Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga minnnist þess með ýmsum hætti á þessu ári að 100 ár eru liðin frá stofnun félagsins og er sýningin hluti af hátíðarárinu. Það var mér heiður að vera við opnun sýningarinnar ásamt góðum gestum og fjölmörgum hjúkrunarfræðingum sem lögðu leið sína á Árbæjarsafn þennan dag. Sýningin er afar fróðleg og skemmtileg, rekur nám hjúkrunarfræðinga þessi hundrað ár í máli og myndum sem og þá miklu þróun sem orðið hefur í faginu. Ég hef áður sagt á þessum vettvangi að hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki Landspítala og raunar heilbrigðisþjónustunnar í landinu og þannig hefur það verið þessi 100 ár. Segja má að margt hafi breyst á þessari öld, en samt ekki – áfram eru það hjúkrunarfræðingar sem bera hitann og þungann í starfseminni og ákváðum við að bregða á leik, ágætar samstarfskonur mínar sem báðar eru hjúkrunarfræðingar og ég - og túlka stöðuna.
Í síðustu viku tilkynnti heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, þá ákvörðun sína að hafinn verði undirbúningur að hönnun göngudeildahúss við Landspítala. Þetta eru afar góðar fréttir og fagnaðarefni. Dag- og göngudeildastarfsemi spítalans er öflug en býr við þröngan kost víða og mikilvægt að bæta þar um svo unnt sé að efla þessa þjónustu. Miklar breytingar og þróun eru í þjónustu við sjúklinga sem krefjast mikillar samhæfingar og teymisvinnu heilbrigðisstétta og gera má ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Það er því mikilvægt að það mikla uppbyggingarstarf sem nú stendur yfir við Hringbraut taki mið af því og er göngudeildarhúsið klárlega stórt skref í því ferli.
Eins og fyrri sumur dregur Landspítali nokkuð úr starfsemi sinni yfir hásumarið. Ræður þar einkum að nokkur dregur úr reglulegri starfsemi, s.s. skipulögðum aðgerðum og meðferðum, en skortur á starfsfólki í hjúkrun vegur einnig þungt. Flest bráðalegurými á Landspítala eru á skurðlækningasviði, flæðisviði og lyflækningasviði og munu þau tvö fyrrnefndu bæta við sumaropnun en á lyflækningasviði er gert ráð fyrir færri opnum legurýmum en áður. Heildarniðurstaðan er sú að nokkuð færri rými verða opin hjá okkur í sumar i 2-3 vikur um hásumarið og ræður þar mannekla, fremur en annað. Sumarið verður því áskorun í þessu tilliti, nú sem áður.
Í dag eru sumarsólstöður. Njótið birtunnar og helgarinnar!
Páll Matthíasson
Mynd: Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra, Páll Matthíasson forstjóri og Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, bregða á leik á sýningunni Hjúkrun í 100 ár.