Martin Ingi Sigurðsson, yfirlæknir á
svæfinga- og gjörgæsludeild og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, stýrir íslenskum rannsóknarhópi sem fékk 19. júní 2019 birta grein í JAMA
Surgery, einu virtasta vísindariti heims á sviði
skurðlækninga. Martin Ingi hefur umsjón með kennslu læknanema og sérnámslækna í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og vinnur að
þróun klínískrar þjónustu svæfinga- og gjörgæslulækninga innan aðgerðasviðs í
samvinnu við aðrar fagstéttir.
Í rannsóknarhópnum eru svæfinga- og gjörgæslulæknar, skurðlæknar og lyflæknar. Kannaðar eru horfur
sjúklinga sem undirgangast skurðaðgerðir á Landspítala í samhengi við
lyfjanotkun sjúklinganna fyrir aðgerð. „Heimurinn allur leitar leiða til að bregðast við faraldri notkunar morfínskyldra lyfja og margir rannsakendur eru nú að kanna áhrif notkunar þeirra á afdrif sjúklinga, meðal annars sjúklinga sem undirgangast skurðaðgerðir. Við höfum jafnframt áhyggjur af afdrifum þeirra sjúklinga sem taka kvíðastillandi lyf af flokki benzodiazepína en notkun þeirra hefur verið vaxandi á Íslandi eins og í heiminum öllum,“ segir Martin Ingi.
Í rannsókninni voru bornar saman horfur einstaklinga sem leystu út lyfseðla fyrir morfínskyldum lyfjum, benzodiazepínlyfjum eða lyfjum úr báðum lyfjaflokkum við einstaklinga sem tóku engin lyf úr þessum lyfjaflokki fyrir aðgerð. Niðurstöður leiddu í ljós að einstaklingar sem leystu út lyfseðla fyrir bæði morfínskyldum lyfjum og benzodiazepínlyfjum höfðu hærri dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð og hærri langtíma dánartíðni en samanburðareinstaklingar. „Það er mikilvægt að geta þess að við getum ekki sýnt fram á orsakasamband með þeirri aðferðarfræði sem beitt var, einungis fylgni milli þessa. Því gagnast niðurstöðurnar einkum til að leggja drög að næstu skrefum sem myndu miða að inngripi í lyfjanotkun.“