Kvenlækningadeild Landspítala 21A hafa verið færðar gjafir sem keyptar voru fyrir fé sem safnaðist með jólatónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík 6. desember 2018.
Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni sem haldnir eru reglulega í hádeginu. Á tónleikunum söfnuðust 508.362 krónur og fyrir þann pening var keyptur hjólastóll og rafdrifin göngugrind sem nýtist skjólstæðingum deildarinnar eftir aðgerðir og auðveldar þeim hreyfingu sem þurfa stuðningsins við. Þá var keyptur nuddstóll, herðanuddtæki, heyrnatól, ilmolíulampi og teppi sem nota á í sérstöku slökunarherbergi fyrir starfsfólk deildarinnar.
Lilja Eggertsdóttir hefur veg og vanda af þessari tónleikaröð en á tónleikunum nú komu fram tveir einsöngvarar, þær Valgerður Guðnadóttir sópran og Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzosópran ásamt kvennakórnum Concordia og hljómsveit. Hljómsveitina skipuðu Chrissie Guðmundsdóttir, fiðla, Íris Dögg Gísladóttir, fiðla, Vigdís Másdóttir, víóla, Þórdís Gerður Jónsdóttir, selló, Þorgrímur Jónsson, kontrabassi, Pamela De Sensi, þverflauta og Lilja Eggertsdóttir, píanó og stjórnandi.
Vefur kvenlækningadeildar 21A
Mynd: Starfsmenn kvenlækningadeildar 21A ásamt Hrund Magnúsdóttur deildarstjóra tóku í júní 2019 við gjöfum frá listrænum stjórnanda tónleikaraðarinnar Á ljúfum nótum, Lilju Eggertsdóttur.