Þórunn Scheving Elíasdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fræðasviðs í svæfinga- og skurðhjúkrun við Landspítala frá 1. maí 2019 sem er tengt starf á Landspítala og við Háskóla Íslands. Auk þess að sinna rannsóknum mun Þórunn leiða kennslu á fræðasviðinu og vinna að þróun klínískrar þjónustu svæfinga- og skurðhjúkrunar innan aðgerðarsviðsins í samvinnu við samstarfsfólk og aðrar fagstéttir.
Þórunn lauk BS námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, viðbótardiplómanámi í svæfingahjúkrun 2000 og MS-gráðu í svæfingahjúkrun frá Columbia University í New York árið 2005.
Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunar- og heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands vorið 2017 og stundar diplómanám í kennslufræði háskóla við Háskóla Íslands. Ásamt því er hún þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni um leiðtogaþjálfun fyrir nýdoktora í rannsóknum og kennslu undir forystu prófessora við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og University Medical Center í Utrecht í Hollandi.
Þórunn lauk prófi til sérfræðiréttinda í svæfingahjúkrun í Bandaríkjunum árið 2005 og fékk sérfræðiréttindi sem slík á Íslandi 2010. Eftir víðtæka starfsþjálfun á námsárunum í New York starfaði hún á Mount Sinai sjúkrahúsinu þar í borg á árunum 2005-2007. Hún var umsjónar- og stundakennari í viðbótardiplómanáminu í svæfingahjúkrun við Háskóla Íslands 2008-2017, aðjúnkt frá 2017 og ráðin í stöðu lektors frá apríl 2019. Hún starfaði á svæfingadeildum Landspítala á árunum 2011-2013 og hefur verið í rannsóknarstöðu á aðgerðarsviði og sem svæfingahjúkrunarfræðingur samhliða aðjúnktstarfi við Háskóla Íslands síðan 2017. Hún vann á gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi á árunum 1995-1997 og svæfingadeildinni í Fossvogi 1997-2001.
Hún hefur setið í námsnefnd viðbótardiplómanámsins í svæfingahjúkrun síðan 2014 og haft umsjón með náminu ásamt náminu í skurðhjúkrun og verið formaður beggja námsnefnda síðan 2017. Áður sat hún í menntanefnd Félags íslenskra svæfingahjúkrunarfræðinga frá árinu 2000-2014. Jafnframt er hún fulltrúi hjúkrunarfræðideildar í námsnefnd viðbótarnáms í gjörgæsluhjúkrun frá haustinu 2018. Hún hefur setið í menntanefnd alþjóðasamtaka svæfingahjúkrunarfræðingar (International federation of nurse anesthetists, IFNA) frá árinu 2016, er meðstjórnandi í Fagdeild vísindarannsakenda í hjúkrun síðan 2018 og varamaður í vísindaráði Landspítala.
Þórunn hefur starfað með rannsóknarhópi á sviði sjónhimnu-súrefnismælinga við Landspítala og Háskóla Íslands frá 2011. Rannsóknaráherslur hennar eru á súrefnismettun sjónhimnuæða með tengsl við meginslagæðar og einnig í augnsjúkdómum og hjá fólki með væga vitræna skerðingu (mild cognitive impairment). Afraksturinn hefur verið kynntur á ráðstefnum bæði hérlendis og erlendis og birtur í alþjóðlegum viðurkenndum vísindatímaritum.