Frá sýkla- og veirufræðideild og sýkingavarnadeild Landspítala:
Þrír sjúklingar hafa í maí 2019 verið greindir með nær alónæmar bakteríur, karbapenemasamyndandi þarmabakteríur E. coli og Klebsiella, sem eru ónæmar fyrir nær öllum sýklalyfjum og eru ein mesta ógn við lýðheilsu í heiminum.
Á Landspítala gilda strangar reglur um skimun fyrir slíkum bakteríum og einangrun sjúklinga sem finnast með þær (sjá hér - aðgengilegt aðeins á innra neti spítalans ). Því miður er mikil aðsókn, krafa um hraða afgreiðslu og þrengsli á viðkvæmum stöðum á sjúkrahúsinu, eins og t.d. á bráðamóttökunni, og mjög erfitt að einangra sjúklinga á viðundandi hátt. Við slíkar aðstæður er mikil hætta á dreifingu baktería á milli einstaklinga og í umhverfið.
Tveir af sjúklingunum þremur sem greindust á Landspítala með nær-alónæmar E. coli eða Klebsiella bakteríur höfðu verið á sjúkrahúsi erlendis en einn hafði engin tengsl við sjúkrahús, aðeins ferðast til lands utan Evrópu og Bandaríkjanna þar sem ónæmi er útbreitt. Við viljum því ítreka mikilvægi þess að starfsfólk muni eftir og fylgi reglum um einangrun, skimræktanir og handþvott.
Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda einstakri stöðu íslenskrar heilbrigðisþjónustu hvað sýklalyfjaónæmi snertir.