Guðmundur Örn Guðjónsson hefur verið ráðinn deildarstjóri öryggisdeildar Landspítala.
Guðmundur Örn hefur starfað sem lögregluþjónn frá árinu 1987, fyrst hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík og frá 2004 hjá Ríkislögreglustjóra. Guðmundur Örn lauk nýliðanámskeiði Sérsveitar Lögreglustjórans í Reykjavík, síðar Ríkislögreglustjóra árið 1992, og starfaði innan Víkingasveitarinnar til ársins 2014. Í sérsveitinni gegndi hann ýmsum störfum við sérhæfða þjálfun og stjórnun lögreglumanna og frá árinu 2004 sem aðalvarðstjóri. Árið 2014 færðist hann til forsætisráðuneytisins sem tengiliður milli Ríkislögreglustjóra og ráðuneytis. Þar bar hann ábyrgð á öryggismálum forsætisráðuneytis ásamt þróun á öryggismálum æðstu stjórnar ríkisins.
Guðmundur Örn lauk námi í Lögregluskóla ríkisins árið 1991 og diplómanámi i stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 2013.
Guðmundur Örn hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum um langt skeið. Hann hefur verið virkur félagi í Gídeonfélaginu á Íslandi og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum m.a. verið forseti félagsins 1996-1999 og 2014-2017.