Arnþrúður Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf deildarstjóra lyfjaþjónustu á Landspítala.
Arnþrúður er lyfjafræðingur að mennt og lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2018. Arnþrúður hefur yfirgripsmikla reynslu úr lyfjageiranum og víðtæka þekkingu á lyfjamálum á Íslandi. Hún hefur starfað innan lyfjageirans sl. 20 ár og þar af verið stjórnandi hjá Vistor frá árinu 2006. Arnþrúður er formaður stjórnar Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.
Deildarstjóri lyfjaþjónustu er nýtt starf innan Landspítala. Deildarstjórinn er yfirmaður lyfjamála á Landspítala, stjórnar daglegum rekstri og er leiðandi í lyfjaþjónustu spítalans. Undir deildarstjóra lyfjaþjónustu heyrir m.a. sjúkrahúsapótek og starfsmenn lyfjanefndar. Sjúkrahúsapótek sinnir lyfjaþjónustu við allar deildir spítalans og lyfjanefnd er ráðgefandi varðandi fagleg mál er varða öryggi sjúklinga, lyfjaþjónustu og innkaup lyfja. Deildarstjóri lyfjaþjónustu mun einnig bera ábyrgð á stefnumótun lyfjaþjónustu til framtíðar og þróa lyfjaþjónustu í nýjum byggingum Landspítala.