Í tilefni af 50 ára afmæli Scandiatransplant var hátíðardagskrá í ráðhúsi Árósa í Danmörku 9. maí 2019.
Scandiatransplant er samnorrænt samstarf um líffæraígræðslur sem hófst í Árósum árið 1969 en Ísland hefur tekið þátt í því með virkum hætti undanfarna þrjá áratugi. Óhætt er að segja að líffæraígræðslustofnunin Scandiatransplant sé einhvert besta dæmið um vel heppnaða samvinnu Norðurlandaþjóðanna. Með þessu samstarfi hefur reynst unnt að auka líkurnar á því að fólk sem bíður lífsbjargar í formi líffæragjafar fái í tæka tíð líffæri sem hentar. Hefur þannig reynst unnt að bjarga lífi þúsunda einstaklinga með líffæraígræðslu. Ætíð skal þó haft hugfast að árangur samstarfsins byggist fyrst og síðast á óeigingjörnum líffæragjöfum.
Scandiatransplant annast sameiginlegan biðlista eftir líffæraígræðslu fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar með það að leiðarljósi að tryggja að sá einstaklingur sem er í brýnustu þörfinni fái líffæri sem býðst. Einnig eiga sér stað skipti á líffærum milli landanna þegar aðrar ástæður leiða til forgangs, t.d. þegar um börn er að ræða og þegar fullt samræmi vefjaflokkamynsturs er fyrir hendi. Því hefur starfsemi Scandiatransplant reynst geysilega heilladrjúg fyrir Norðurlandaþjóðirnar síðastliðin 50 ár.
Um afmælið í forstjórapistli 10. maí