Kæra samstarfsfólk!
Gleðilegt sumar!
Það er vor í lofti og eins og ætíð á þeim tíma hér á Landspítala er mikið um að vera. Í gær voru Vísindi á vordögum en það er hin árlega uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum. Að þessu sinni var Helga Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands valin heiðursvísindamaður ársins og ungur vísindamaður ársins var valinn Þórir Einarsson Long, sérnámslæknir á lyflækningasviði. Fleiri viðurkenningar voru afhentar en alls var 96 styrkjum að upphæð 87 milljónir króna úthlutað sem er hærri upphæð en áður hefur verið veitt til vísindasjóðs. Betur má ef duga skal en þetta endurspeglar þá áherslu sem spítalinn vill leggja á vísindarannsóknir. Jafnframt fékk Runólfur Pálsson, yfirlæknir og prófessor við Háskóla Íslands, 5 milljón króna styrk úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem Árni Kristinsson og Þórður Harðarson stofnuðu árið 1986. Bertrand Lauth barnageðlæknir og lektor við HÍ hlaut síðan verðlaun Minninga- og gjafasjóðs Landspítala Íslands að upphæð 2 milljónir króna. Næsta vika er síðan árleg vika hjúkrunar sem hjúkrunarráð hefur að vanda skipulagt af miklum metnaði. Áherslan þetta vorið er „heilsa fyrir alla.“
Landspítali er í fararbroddi í umbótastarfi bæði í stóru og smáu. Ég fylgist með mörgum slíkum verkefnum og nú nýlega ég fékk að heyra af spennandi verkefni á bæklunarskurðlækningadeild B5. Þar höfðu framsýnir hjúkrunarfræðingar kynnt sér aðferðir kollega erlendis og innleiddu á deildinni „rapport við rúm sjúklings.“ Í því felst að við vaktaskipti morgun- og kvöldvaktar fer „rapport“ sjúklings fram við rúm hans þannig að sjúklingur getur verið virkur þátttakandi í ferlinu. Þetta er í samræmi við áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að flytja upplýsingagjöf að rúmi sjúklings til að auka þátttöku sjúklinga í eigin meðferð og fyrirbyggja alvarleg atvik. Yfirfærsla sjúklings milli vakta, eininga og heilbrigðisstétta getur verið öryggisógn fyrir sjúklinga og með þessu móti er hægt að koma í veg fyrir mörg slík. Þetta er spennandi og sjálfsprottið verkefni sem ber framsýni og faglegum metnaði hjúkrunar á deildinni frábært vitni.
Ljósmæðrafélag Íslands fagnaði aldarafmæli sínu í gær. Mig langar til að nota tækifærið og óska ljósmæðrum og landsmönnum öllum hjartanlega til hamingju með afmælið.
Góða helgi!
Páll Matthíasson