Þórir Einarsson Long var útnefndur ungur vísindamaður Landspítala á Vísindum á vordögum 2. maí 2019 og fær 200 þúsund króna heiðursfé.
Þórir er fæddur 1989 og útskrifaðist með kandidatspróf í læknisfræði við Háskóla Íslands 2015. Hann lauk kandídatsári á Landspítala 2016 og hefur síðan þá starfað sem sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala.
Í kjölfar BSc rannsóknarverkefnis í læknisfræði 2012 fékk Þórir mikinn áhuga á klínískum rannsóknum og þar má sérstaklega þakka áhugahvetjandi og drífandi leiðbeinendum. Hann vann í rannsóknum meðfram læknanámi og kandídatsári og hóf síðan formlega doktorsnám við Háskóla Íslands vorið 2016.
Doktorsvörn Þóris fer fram í desember 2019. Titill doktorsverkefnisins er: „Bráður nýrnaskaði - Nýgengi, áhættuþættir, endurheimt nýrnastarfsemi og lifun.“ Leiðbeinendur hans við verkefnið eru Gísli H. Sigurðsson, Ólafur Skúli Indriðason og Martin Ingi Sigurðsson en auk þeirra sitja í doktorsnefnd hans Runólfur Pálsson og Tómas Guðbjartsson.
Þórir hefur kynnt rannsóknir sínar á mörgum ráðstefnum bæði hérlendis og erlendis og hefur meðal annars fengið styrki frá Vísindasjóði Landspítala.