Þrír vísindamenn fengu ferðastyrki vísindaráðs Landspítala fyrir veggspjöld sín á Vísindum á vordögum 2019; Daði Helgason, Stefanía Bjarnason og Sólveig Anna Aðalsteinsdóttir. Hvert þeirra fékk 100 þúsund krónur.
Daði Helgason
Bráður nýrnaskaði eftir skurðaðgerð við ósæðarflysun af gerð A: Tíðni, áhættuþættir og lifun.
Rannsóknin er hluti af samnorrænu rannsóknarverkefni, The Nordic Consortium for Acute type A Aortic Dissection (NORCAAD), sem er gagnagrunnur sem nær til 1159 sjúklinga sem gengust undir aðgerð á aðfarandi hluta ósæðar á 8 háskólasjúkrahúsum í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og á Íslandi á árunum 2005-2014. Gagnagrunnurinn er einn sá stærsti sinnar tegundar og þegar hafa fjölmargar vísindagreinar verið birtar úr NORCAAD rannsóknarverkefninu. Helstu markmið þessarar rannsóknar eru að kanna tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða í kjölfar aðgerðar við ósæðarflysjun af gerð A og meta áhrif skaðans á horfur sjúklinga, bæði til skemmri og lengri tíma. Fyrri rannsóknir á þessu sviði ná til fárra sjúklinga og almennt hefur verið skortur á upplýsingum um langtíma afdrif.
Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Daða Helgasonar en hann er sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands. Hann mun verja doktorsritgerð sína „Bráður nýrnaskaði í kjölfar hjartaaðgerða og kransæðaþræðinga” 7. júní 2019i. Aðalleiðbeinandi Daða í rannsókninni er Tómas Guðbjartsson prófessor.
Stefanía P. Bjarnarson
Stefanía P. Bjarnarson er dósent í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á ónæmisfræðideild Landspítala. Rannsóknir Stefaníu hafa frá upphafi rannsóknaferils hennar einkum beinst að ónæmisskerfi nýbura og þróun leiða til að efla svörun þeirra við bólusetningum. Í bólusetningateymi prófessors Ingileifar Jónsdóttur og Stefaníu eru doktorsnemarnir Auður Anna Aradóttir Pind og Jenny Molina og Guðbjörg J. Magnúsdóttir, sem er að ljúka meistaranámi.
Undanfarin ár hafa rannsóknir þeirra beinst að því hvaða ónæmisglæða má nota til að efla svörun við bólusetningum og á hvaða þætti ónæmiskerfisins þeir hafa áhrif. Ónæmisglæðar eru hjálparefni sem geta aukið ónæmissvar við bólusetningu. Unnið að þróun nýrra öruggra og öflugra ónæmisglæða til að bæta ónæmissvör þeirra sem verst svara bólusetningum, einkum ungra barna og aldraðra. Rannsóknarhópurinn notar nýburamýs sem bólusetningamódel, en vikugamlar mýs samsvara ágætlega nýburum manna hvað varðar þroska ónæmiskerfisins. Stefanía hefur með rannsóknum sínum fyrst allra sýnt fram á að með því að gefa nýburamúsum ákveðinn ónæmisglæði með bóluefni þroskast kímstöðvar í eitilvef fyrr en ella. Kímstöðvar eru eins konar uppeldisstöðvar fyrir mótefnamyndandi B frumur og B minnisfrumur. Þessi aukna virkni kímstöðva leiddi til myndunar fleiri mótefnaseytandi B frumna, fari þeirra í beinmerg og lengri lifun þar, sem stuðlaði að aukinni framleiðslu mótefna í lengri tíma. Í nýjustu rannsókn sinni sýnir Stefanía fram á að þroskun B og T frumna er mjög aldursháð. Í nýburamúsum hafa þær meiri tilhneigingu að sérhæfast í bælandi stýrifrumur en frumur sem hvetja ónæmissvör og eru bælifrumur hlutfallslega miklu fleiri í nýburamúsum en fullorðnum. Þetta getur að hluta skýrt daufa ónæmissvörun nýbura og ungbarna við bólusetningum sem er ástæða þess að nauðsynlegt er að bólusetja ungviði nokkrum sinnum til að fá fram verndandi ónæmi. Rannsókn Stefaníu sýndi einnig að þegar nýburamýs voru bólusettar með bóluefni ásamt ónæmisglæði fækkaði bælifrumum hlutfallslega en aukning varð á B frumum og ónæmishvetjandi T frumum í kímstöðvum eitilvefja. Ónæmisglæðir sem eflir ónæmissvör hjá nýburamúsum dregur þannig úr þroskun og virkjun bælifrumna og hlutfall bælifrumna á móti ónæmishvetjandi eitilfrumum verður líkara því sem er í fullorðnum músum.
Sólveig Anna Aðalsteinsdóttir
Sólveig Anna Aðalsteinsdóttir er upphaflega frá Kaliforníu og lauk grunnámi í næringarfræði við skólann University of California Davis. Hún er meistaranemi í næringarfræði í Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hennar er Ingibjörg Gunnarsdóttir og rannsóknarverkefnið „Er hægt að skilgreina áhættuhóp fyrir joðskort með því að spyrja um matarval í byrjun meðgöngu?“ er hluti af stærri PREWICE II rannsókninni.
Rannsókn á joðhag barnshafandi kvenna á Íslandi, sem gerð var fyrir 10 árum síðan, sýndi að joðhagur var innan þeirra marka sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur ásættanlegt (miðgildi joðstyrks í þvagi var 180 µg/L). Þátttakendur voru hins vegar fáir (n=162) og ekki hægt að skoða sérstaklega hópa sem borða lítið magn af helstu joðgjöfum í íslensku mataræði, fiski og mjólkurvörum. Markmiðið var að meta joðhag barnshafandi kvenna og að kanna hvort hægt væri að skilgreina áhættuhóp fyrir joðskort með því að spyrja einfaldra spurninga um fæðuval í upphafi meðgöngu.
Jafnvel vægur joðskortur móður á meðgöngu hefur verið tengdur við lakari frammistöðu barna á greindarprófum og því er mikilvægt að fylgjast reglulega með joðhag barnshafandi kvenna. Af þeim 1.350 konum sem boðin var þátttaka skrifuðu 1015 (75%) undir samþykkisyfirlýsingu, en 984 (73%) skiluðu þvagsýni. Miðgildi joðstyrks í þvagi reyndis vera 89 µg/L. Alls sögðust 35% þátttakenda borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku en 19% neytti að minnsta kosti tveggja skammta af mjólkurvörum á dag. Engin tengsl sáust milli fiskneyslu og joðstyrks í þvagi. Miðgildi joðstyrks í þvagi kvenna sem neytti aldrei mjólkurvara eða sjaldnar en einu sinni í viku (n=88) var 57 µg/L, en 121 µg/L hjá þeim sem neyttu að minnsta kosti tveggja skammta af mjólkurvörum á dag (n=190). Miðgildi joðstyrks í þvagi hefur lækkað umtalsvert frá fyrri rannsókn og var undir viðmiðum WHO. Joðskorti er hér lýst í fyrsta sinn á Íslandi og benda niðurstöðurnar til þess að nauðsynlegt sé að leita leiða til að bæta joðhag kvenna á barnsburðaraldri.