Bertrand Andre Marc Lauth sérfræðilæknir fékk verðlaun Minninga- og gjafasjóðs Landspítala Íslands sem afhent voru á Vísindum á vordögum 2. maí 2019. Verðlaunin nema tveimur milljónum króna.
Hann er sérfræðingur í geðlækningum og barna- og unglingageðlækningum 1989 (sérfræðimenntun í Frakklandi, Lille og París). Sérfræðingur á Fondation Vallée (Háskólasjúkrahús) í París 1989-1998, og síðan á BUGL (Landspítala) frá 1998. Lauk doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2011. Lektor við læknadeild HÍ frá 2013. Höfundur rannsókna, greina og bókakafla í barna- og unglingageðlæknisfræði.
Rannsókn
Mataræði, þarmaflóra og geðheilbrigði barna og unglinga. Langtíma, tilfella-viðmiða athugunarrannsókn: Blóðmælingar (bólgulífmerki og nærringarástand) forrannsóknarinnar. Þýðing og aðlögun Rome IV spurningalista Rafræn uppsetning matslista á geðrænum einkennum
Sem hluti af rannsókn: Meals, Microbiota and Mental Health of Children and Adolescents (“MMM rannsóknin”) Birna Ásbjörnsdóttir, Bertrand Lauth, Ingibjörg Karlsdóttir, Orri Smárason, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, Þórhallur Halldórsson, Inga Þórsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Viggó Þór Marteinsson, Bryndís Eva Birgisdóttir
Nýlegar rannsóknir benda til þess að samspil mataræðis, þarmaflóru og gegndræpi þarma geti haft áhrif á geðheilbrigði. Þörf er á frekari rannsóknum sérstaklega hjá börnum og unglingum sem stutt geta við ný meðferðarúrræði hvað varðar geð- og þroskaraskanir þeirra. Vísindalegt og fræðilegt gildi slíkrar rannsóknar er ótvírætt og byggir fyrst og fremst á góðri rannsóknarhönnun. Markmið þessarar langtíma tilfella-viðmiða athugunarrannsóknar er að skoða mataræði, þarmaflóru og efnaskiptaþætti meðal barna og unglinga sem eru greind með geðraskanir og bera saman við viðmiðunarhóp. Öllum börnum og unglingum sem vísað er á BUGL yfir eins árs tímabil verður boðin þáttaka (N =150) (5-15 ára). Samanburðahópar verða tveir; 1) Alsystkini greindra einstaklinga (+/-3 ár) (N<150); 2) Börn og unglingar valdir af handahófi úr sama póstnúmeri (sama kyn, sami aldur) (N=150). Margþættir spurningalistar, matslistar ásamt matardagbók verða lagðir fyrir börnin. Þátttakendur ásamt forráðamönnum taka saursýni, þvagprufu, munnholsstrok og munnvatnssýni sjálf á handhægan hátt. Þátttakendur mæta einnig í blóðprufu. Gagnasöfnun verður endurtekin að þremur árum liðnum í sama hópi. Forrannsókn hefst haustið 2018 á 15 tilfellum og 15 viðmiðum til að kanna styrkleika og veikleika í uppsetningu rannsóknarinnar. Svo víðfemum og nákvæmum gögnum hefur ekki verið safnað áður. Rannsóknin býður einnig upp á möguleika á íhlutunarrannsóknum tengdum næringar- og lífstílsmeðferðum í framhaldinu.
Þessi rannsóknaráætlun er ávöxtur nokkra ára samvinnu og samstarfsverkefnis Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands (Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor, Birna G. Ásbjörnsdóttir, doktorsnemi), Læknadeildar HÍ (Bertrand Lauth, lektor) og barna- og unglingageðdeildar Landspítala BUGL (Bertrand Lauth, Ingibjörg Karlsdóttir, félagsráðgjafi, Orri Smárason, sálfræðingur)