Læknakandídatar á Landspítala tilnefndu yfir 40 lækna og 20 deildir/teymi þegar þeir svöruðu vefkönnun um besta kennarann og bestu námsdeildina fyrir kandídata árið 2018. Voru viðurkenningar afhentar þann 13. mars 2019. Helga Rún Garðarsdóttir og Jón Magnús Jóhannesson, fyrrverrandi kandídatar, heimsóttu viðkomandi deildir ásamt Ingu Sif Ólafsdóttur kennslustjóra og afhendu verðlaunin fyrir hönd kandídatahópsins.
Agnar Bjarnason, sérfræðilæknir í smitsjúkdómalækningum, hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi klíníska kennslu í starfi á Landspítala. Var það í ellefta sinn sem slík viðurkenning er veitt. Sigurður Guðmundsson sérfræðilæknir í smitsjúkdómalækningum hlaut þessi verðlaun síðast þegar þau voru afhent.
Bráðamóttaka Landspítala Fossvogi hlaut viðurkenningu fyrir að skara fram úr í kennslu kandídata og tóku Jón Magnús Kristjánsson, Hjalti Már Björnsson og Curtis Pendleton Snook á móti viðurkenningunni. Var þetta í sjöunda sinn sem þessi viðurkenning er veitt og í þriðja sinn sem bráðamóttakan hlýtur hana. Síðast hlaut Barnaspítali Hringsins þessi verðlaun.
Af öðrum læknum sem tilnefndir voru má nefna Hjalta Má Björnsson og Vincente Sánchez-Brunete, sérfræðilækna í bráðalækningum, og þau feðginin Bryndísi Sigurðardóttur og Sigurð Guðmundsson sérfræðilækna í smitsjúkdómalækningum. Deildir sem mætti nefna eru bráðalyflækningadeild A2 og smitsjúkdómadeildin í Fossvogi.
Mynd I: Agnar Bjarnason, Helga Rún Garðarsdóttir, Jón Magnús Jóhannesson og Ingu Sif Ólafsdóttir.
Mynd II: Jón Magnús Kristjánsson, Hjalti Már Björnsson, Curtis Pendleton Snook, Helga Rún Garðarsdóttir, Jón Magnús Jóhannesson og Ing Sif Ólafdóttir.