Martin Ingi Sigurðsson hefur verið ráðinn í starf prófessors og yfirlæknis í svæfinga- og gjörgæslulækningum við læknadeild Háskóla Íslands og aðgerðarsvið Landspítala frá 1. mars 2019. Starfið var veitt að fengnu áliti sameiginlegrar valnefndar sem var tilnefnd af forstjóra Landspítala og rektor Háskóla Íslands.
Starfið er samhliða starf á Landspítala og við Háskóla Íslands. Auk þess að sinna rannsóknum mun Martin Ingi leiða kennslu læknanema og sérnámslækna í svæfinga- og gjörgæslulækningum og vinna að þróun klínískrar þjónustu svæfinga- og gjörgæslulækninga innan aðgerðasviðs í samvinnu við aðrar fagstéttir.
Martin Ingi lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Samhliða læknanámi lagði hann stund á doktorsnám í erfðafræði við Háskóla Íslands sem hann lauk með doktorsvörn árið 2011. Að loknu starfi sem deildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala árið 2011-2012 hélt hann til Boston í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði sérnám í svæfingalækningum við Brigham and Women’s sjúkrahúsið, eitt kennslusjúkrahúsa Harvard háskólans í Boston. Að loknu því sérnámi árið 2016 hélt Martin Ingi til Durham í Norður-Karolínu þar sem hann bætti við sig sérnámi í svæfingum fyrir hjarta-og lungnaskurðaðgerðir og einnig í gjörgæslulækningum við Duke háskólasjúkrahúsið árin 2016-2018. Hann hefur lokið bandarísku sérfræðiprófunum í svæfingalækningum, hjartaómskoðunum fyrir hjartaskurðaðgerðir og í gjörgæslulækningum.
Að sérnámi loknu hóf Martin Ingi störf sem sérfræðilæknir við svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala sumarið 2018. Samhliða því hefur hann starfað sem aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands að verkefnum tengdum rannsóknartengdu framhaldsnámi.
Samhliða námi og klínískum störfum hefur Martin Ingi verið afkastamikill vísindamaður, einkum á sviði erfðafræði hjartasjúkdóma og rannsókna á árangri ýmissa skurðagerða og afdrifum gjörgæslusjúklinga. Hann hefur komið að leiðbeiningu fjölda nemenda á BS-, meistara- og doktorsstigi. Eftir hann liggja um 70 fræðigreinar með um 1.400 tilvitnanir, þar af 28 sem fyrsti eða síðasti höfundur. Martin Ingi hefur haldið áfram rannsóknum í tengslum við vísindamenn á Harvard og Duke háskólunum auk innlendra verkefna í samstarfi við fjölda vísindamanna á Landspítala.
Martin Ingi er giftur Önnu Björnsdóttur taugalækni og eiga þau soninn Björn.