Frá Landspítala vegna mislinga:
Mislingar eru veirusjúkdómur sem er mjög smitandi. Hann smitast loftborið og með snertingu. Fjögur mislingasmit hafa nú komið upp á Íslandi á undanförnum dögum, sem er alvarlegasta staðan í áratugi. Yfir 90% landsmanna eru ónæm fyrir smiti vegna bólusetninga eða eldra smits. Bólusetning hefst samkvæmt skema við 18 mánaða aldur og eru því yngri börn sérstaklega viðkvæm fyrir sjúkdómnum. Ekki er ástæða til að láta skoða einkennalaus börn.
Hringið í 1700
Ef grunur leikur á mislingasmiti er hægt að hafa samband við símanúmerið 1700 þar sem hjúkrunarfræðingar á vakt veita allar frekari leiðbeiningar um næstu skref og hvert eigi að leita. Almenningur er beðinn um að fara hvorki á heilsugæslustöð né sjúkrahús ef talið er að mislingasmit sé á ferð.
Nánari greining í heimahúsum
Læknavaktin mun heimsækja fólk með vitjunum og gera nauðsynlegar greiningar í heimahúsum og hafa síðan samband við sjúkrahús eða aðrar heilbrigðisstofnanir varðandi innlögn eða meðferð þar, ef þörf krefur. Sérfræðingar í símanúmerinu 1700 aðstoða almenning við forgreiningu og meta næstu skref. Vinsamlegast hjálpið okkur við að deila þessum skilaboðum til fólks.
Einkenni
Einkennin byrja oftast með „flensulíkum“ einkennum; hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna. Börnin eru smitandi eftir að hiti og almenn einkenni koma fram eða í um það bil 4 daga áður en útbrotin koma fram og meðan útbrotin eru að ganga yfir. Ýmsir sjúkdómar eins og niðurgangur, eyrnabólga, kviðverkir og uppköst geta komið í kjölfar mislinga og í stöku tilfellum geta alvarlegir fylgikvillar komið fram, líkt og lungnabólga og heilabólga.
Bólusetning
Það tekur um 7-21 dag fyrir veikindin að koma fram og einstaklingar verða smitandi um einum sólarhring áður en þeir veikjast og smita í um 10 daga. Sóttvarnalæknir vill því ráðleggja óbólusettu fólki og börnum þeirra að fara sem fyrst í bólusetningu til að koma í veg fyrir veikindi. Bólusetning innan 72 klst frá smiti kemur í mörgum tilfellum í veg fyrir veikindi.
Mikilvæg ónæmisaðgerð
Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum, bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda oftast litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að fólk veikist af sjúkdómum sem bólusett er gegn.
Farsóttir og hjarðónæmi
Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur. Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.