Áhrif líkamsbyggingar og lífeðlisfræði á breytileika efri loftvegs er til athugunar í vísindarannsókn á áhættuþáttum kæfisvefns og er leitað eftir grönnum einstaklingum án kæfisvefns í viðmiðunarhóp til að taka þátt í henni. Þeim sem vilja taka þátt býðst að skimað sé fyrir kæfisvefni með svefnrannsókn áður en endanleg þátttaka er ákveðin.
Rannsóknin fer fram á svefndeildinni á Landspítala Fossvogi. Þórarinn Gíslason, yfirlæknir deildarinnar, er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, s. 543 1000. Rannsóknin er þátttakendum að kostnaðarlausu. Að rannsókn lokinni býðst þátttakendum að fá niðurstöður úr segulómskoðun, fráblástursmælingu og skimun fyrir kæfisvefni.
Hverjir geta tekið þátt?
- Karlar og konur á aldrinum 18-70 ára.
- Þátttakendur verða að vera grannir (BMI ≤25).
- Heilsufar þarf að hafa verið stöðugt síðastliðna 2 mánuði.
- Fleiri þættir geta útilokað þátttöku í rannsókninni en spurt verður um slíkt ef viðkomandi hefur samband vegna áhuga á þátttöku.
Hvað felur rannsóknin í sér?
Full þátttaka í rannsókninni felur í sér fjórar heimsóknir.
1. Skimað er fyrir kæfisvefni með svefnrannsókn í heimahúsi.
2. Líkamsmælingar, fráblástursmælingu til að meta lungnastarfsemi, mældur er vöðvakraftur í tungu, svara þarf spurningalista, teknar eru stafrænar ljósmyndir af andliti og munnholi og skila þarf munnvatnssýni til mælinga á erfðaþáttum.
3. Ítarleg svefnrannsókn þar sem líkt verður eftir kæfisvefni með því að auka viðnám í öndunarvegi með þar til gerðum búnaði. Þessi hluti rannsóknarinnar er gerður inniliggjandi á Landspítala Fossvogi.
4. Segulómun (MRI) af efri loftvegi og kvið / ómun af tungu.
Frekari upplýsingar
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt, vinsamlegast hafðu samband við starfsmann rannsóknarinnar í síma 543 6010 milli kl. 13:00-14:00 þriðjudaga til fimmtudaga eða í tölvupósti á netfangið expo@landspitali.is.Tekið skal fram að einstaklingar sem svara auglýsingunni hafa á engan hátt skuldbundið sig til þátttöku í rannsókninni. Ákveði þeir að taka þátt geta þeir dregið sig út úr rannsókninni hvenær sem er án þess að gefa sérstaka ástæðu fyrir ákvörðun sinni.
Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar (VSN-17-049)