Starfsfólki Landspítala hefur undanfarin fimm ár staðið til boða að gera svokallaðan samgöngusamning við vinnustaðinn. Samningurinn snýst um mánaðarlegar greiðslur til starfsfólks gegn því að það ferðist með vistvænum hætti til vinnu. Samgöngusamningur starfsfólks Landspítala tekur nú þríþættum breytingum, sem lúta að tilraunaverkefni með Strætó, tvískiptingu samnings og viðbótarþjónustu við fólk með slíkan samning. Umræddum sérkjörum er ætlað að hvetja til vist- og heilsuvænni ferðamáta starfsfólks, auk þess sem þau eru talsverð kjarabót.
Tilraun með strætó
Tilraunaverkefni Strætó og Landspítala er til eins árs. Verkefnið snýst um að starfsfólk með samgöngusamning getur nú keypt samgöngukort Strætó á sérkjörum, 29.500 kr., en það er um 56% afsláttur miðað við listaverð í dag, sem er 66.400 kr.
Tvískiptingin
Starfsfólk getur nú bæði gert 80% samgöngusamning og 40%. Helsti munur á þessum samningum er eftirfarandi.
• Starfsfólk sem skrifar undir 80% samgöngusamning skuldbindur sig til að ferðast í 80% tilvika með vist- og heilsusamlegum hætti til vinnu (60% áður). Þessi breyting er gerð samkvæmt kröfu Ríkisskattstjóra. Starfsfólk á 80% samningi fær greiddar kr. 5.000/mánuði skattfrjálsar eins og áður og getur keypt samgöngukort Strætó á sérkjörum, 29.500 kr.
• Starfsfólk sem skrifar undir 40% samgöngusamning skuldbindur sig til að ferðast í 40% tilvika með vistvænum hætti til vinnu og getur keypt samgöngukort Strætó á fyrrnefndum sérkjörum, 29.500 kr, en fær engar mánaðarlegar greiðslur.
Viðbótarþjónusta
Þjónusta við starfsfólk með samgöngusamning, hvort heldur 40% eða 80%, hefur nú verið aukin.
• Komi upp óvænt atvik á vinnutíma, til dæmis veikindi barns, getur starfsfólk með samgöngusamning, í samráði við yfirmann, tekið leigubíl á kostnað Landspítala.
• Þurfi starfsmaður með samgöngusamning að fara í læknisheimsókn, sem ekki er hægt að sinna utan dagvinnutíma, getur viðkomandi tekið deilibíl á kostnað Landspítala í samráði við yfirmann.
• Fleiri hjólaskýli eru í bígerð. Þar má nefna vel útbúið og aðgangsstýrt hjólaskýli fyrir starfsfólk við Hringbraut í apríl, staðsett við starfsmannainngang Eiríksgötumegin.
Að gera samning
Nauðsynlegt er að fara á innri vef Landspítala og fylla út viðeigandi samning, samkvæmt kröfu Ríkisskattstjóra, til að geta notið ofangreindra sérkjara. Mikilvægt er að velja réttan samning í upphafi, annað hvort 40% eða 80%.
Ferlið er þannig, að yfirmenn senda undirritaða samninga til launadeildar Landspítala, sem skráir samninga og sendir síðan viðeigandi upplýsingar til Strætó með reglubundnum hætti. Að því ferli loknu getur fólk keypt kortið, en það tekur nokkra daga.
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar fyrir starfsfólk Landspítala er að finna á innri vef Landspítala undir Starfsmaðurinn > Heilsa og öryggi > Samgöngusamningur.