Skipti af frumlyfjum yfir í lífræn hliðstæðulyf (biosimilar)
Töluverður fjárhagslegur ávinningur áætlaður af tveimur nýlegum lyfjaútboðum
Í tveimur nýlegum lyfjaútboðum Landspítala voru líftæknilyf boðin út. Flest þessara lyfja hafa verið í notkun í meira en áratug og eru notuð bæði við langvinnum bólgusjúkdómum og ýmsum illkynja sjúkdómum.
Fyrst eftir að lyfin voru tekin í notkun jókst kostnaður vegna þeirra jafnt og þétt. Í kjölfar þessara útboða má hins vegar gera ráð fyrir að kostnaður vegna lyfjanna lækki umtalsvert. Það má rekja til aukinnar samkeppni vegna markaðssetningar lífrænna hliðstæðulyfja (biosimilar).
Frumlyfin og lífrænu hliðstæðulyfin innihalda sömu virku efnin og eru samþykkt bæði af lyfjastofnunum Evrópu og Íslands. Evrópska lyfjastofnunin ábyrgist að gæði, virkni og öryggi lyfjanna séu þau sömu.1 Á undanförnum árum hafa skipti af frumlyfjum yfir í lífræn hliðstæðulyf gengið mjög vel á Norðurlöndum og mikill fjárhagslegur ávinningur náðst.2
Á Landspítala er lögð áhersla á að skipti af frumlyfjum yfir á lífræn hliðstæðulyf gangi greiðlega fyrir sig og að Íslendingar feti í fótspor annarra Norðurlandaþjóða í þeim efnum. Það felur m.a. í sér breytingu á lyfjaávísunum. Skipti sem þessi hvetja til aukinnar samkeppni á lyfjamarkaði og stuðla þannig að verðlækkun lyfja og létta fjárhagslega byrði heilbrigðiskerfisins.
Markmiðið með skynsamlegri og hagkvæmari notkun lyfja er að ná fjárhagslegum ávinningi, sem nýtist til að innleiðingar nýrra lyfja.
1 https://www.ema.europa.eu/en/human-regulatory/overview/biosimilar-medicines-overview
2 https://www.dagensmedisin.no/artikler/2019/01/08/sparer-500-millioner-i-medisinsutgifter/