Minningarsjóður Vilhjálms Fenger færði sérhæfðri endurhæfingargeðdeild á geðsviði Landspítala veglega gjöf í janúar 2019. Sjóðurinn styrkti þá kaup á nýjum húsgögnum fyrir herbergi sjúklinga á deildinni sem gjörbreyttu ásýnd innanstokks, ásamt því sem fjárfest var í gardínum, rúmfötum og handklæðum.
Sjóðurinn var stofnaður í febrúar 2014 og stefna hans er að styrkja mannúðar-, menningar-, og íþróttastarfsemi á Íslandi. Sjóðurinn hefur komið að fjölmörgum merkilegum verkefnum og meðal annars styrkt rausnarlega legudeildina á barna- og unglingageðdeild (BUGL).
Sérhæfð endurhæfingargeðdeild er lokuð geðdeild sem sinnir endurhæfingu einstaklinga með geðrofssjúkdóma og í sumum tilfellum einnig fíknivanda (tvígreiningu). Deildin hentar vel þeim sem þurfa mikinn stuðning og eiga erfitt með að fóta sig á opinni geðdeild.
Ljósmynd: Kristín Fenger, Björg Fenger og Helga Lilja Gunnarsdóttir, sem skipa stjórn Minningarsjóðs Vilhjálms Fenger, og Ingibjörg Þór Reynisdóttir, aðstoðardeildarstjóri sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar.
Vefsíða sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar