Mats- og hæfisnefnd, skv. reglugerð nr. 467/2015 um starfs- og sérfræðinám lækna, hefur samþykkt marklýsingu fyrir tveggja ára upphaf sérnáms í barnalækningum á Landspítala og hefur viðurkennt Barnaspítala Hringsins sem námsstað. Allmargir læknar eru nú þegar í sérnáminu á Landspítala en munu svo þurfa að fara til áframhaldandi sérnáms við erlendar stofnanir/sjúkrahús. Gerð er krafa um vel skipulagt sérnám með skýrum áföngum og markmiðum og unnið er að því að fá námstíma á Íslandi viðurkenndan á erlendum stofnunum. Að lágmarki þarf 5 ára tíma í skipulögðu námi með fullnægjandi frammistöðumati til að unnt sé að fá réttindi sem sérfræðilæknir hér á landi eða í ES og EES löndum. Marklýsingin tekur mið af evrópskum og breskum viðmiðum, einkum frá Evrópusamtökum barnalækna. Þórður Þórkelsson, yfirlæknir á Barnaspítalanum, er kennslustjóri.
Þá hefur Mats- og hæfisnefndin um starfs- og sérfræðinám lækna einnig samþykkt marklýsingu fyrir allt að þriggja ára upphafssérnám í því sem kallast Samþætt kjarnanám í bráðagreinum lækninga (skammstafað SKBL), á Landspítala og að hluta á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Nefndin hefur viðurkennt báðar þessar stofnanir sem námsstaði. Allmargir læknar eru nú þegar í sérnáminu á Landspítala og eru skráðir í það með áherslu á eftir atvikum bráða-, lyf- eða svæfinga- og gjörgæslulækningar en námið er samvinnuverkefni þessara deilda á Landspítala. Eftir að miklu leyti sameiginleg tvö ár skiljast leiðir að nokkru á þriðja námsári inn í þá meginsérgrein sem námslæknirinn hefur valið sér af þeim þrem sérgreinum sem standa að náminu. Hér er verið að þjálfa lækna með nýjum hætti til að takast á við margvísleg slysa- og bráðatilvik sjúklinga á öllum aldri. Sérnám í heimilislækningum tengist einnig námsferlinu . Marklýsingin tekur mið af breskri marklýsingu um samskonar nám (e. acute common core stem) og námið er sett upp með leyfi frá bresku samtökunum. Læknarnir Friðbjörn Sigurðsson, Hjalti Már Björnsson og Kári Hreinsson eru kennslustjórar á Landspítala.
Leit
Loka