Kæra samstarfsfólk!
Embætti landlæknis brást skjótt við ósk heilbrigðisráðherra um hlutaúttekt á Landspítala í ljósi þeirrar stöðu sem uppi var á spítalanum í byrjun mánaðarins. Skilaði embættið minnisblaði til ráðherra þar sem landlæknir tekur undir öll þau megin sjónarmið sem við á Landspítala höfum undanfarin misseri haldið fram. Fjölgun veikra aldraðra og mönnunarvandi við hjúkrun eru miklar áskoranir. Þær eru ekki nýjar en hefur ekki verið mætt með fullnægjandi hætti. Það er því heppilegt að í æðstu embættum heilbrigðiskerfisins situr nú fólk sem hefur skilning á stöðunni og er tilbúið í þá miklu vegferð sem framundan er til að bregðast við vandanum til lengri tíma. Í þeirri vegferð munum við á Landspítala leggja okkar af mörkum.
Í dag eru vetrarsólsstöður, stysti dagur ársins. Framundan er jólahátíðin og enda þótt vissulega dragi úr starfsemi á Landspítala stöndum við vaktina hverja mínútu sólarhringsins. Mörg okkar þekkja þá helgi sem fylgir því að vera við vinnu á þessum tíma. Þrátt fyrir að sjúklingar og fjölskyldur þeirra vildu vafalaust vera annars staðar einmitt þennan tíma fylgir jólahaldinu á spítalanum hátíðleiki. Margir sem eru við störf á Landspítala þegar hátíðin gengur í garð gera það að eigin frumkvæði en auðvitað eru fjölskylda og vinir sem sakna þeirra við hátíðarhöldin. Þeim öllum, starfsfólki og fjölskyldum þeirra, sendi ég sérstakar hátíðarkveðjur.
Góða vakt og gleðileg jól!
Páll Matthíasson