Landspítali hefur gefið út bækling með aðgengilegu og gagnlegu fræðsluefni um aðferðir til að draga úr verkjum og kvíða barna fyrir inngrip. Bæklingurinn er ætlaður foreldrum og aðstandendum barna.
Dæmi um inngrip eru blóðprufur, bólusetningar, uppsetning æðaleggs, ísetning næringarslöngu í meltingarveg, þvagleggsísetning, lyfjagjöf undir húð, lyfjagjöf í vöðva og sárasaumur.
Öll börn munu reyna óþægileg inngrip nokkrum sinnum, ýmist í tengslum við hefðbundnar bólusetningar eða rannsóknir/meðferðir vegna veikinda. Algengt er að slík inngrip veki kvíða eða ótta hjá börnum. Þegar börn eru í kvíðavekjandi aðstæðum leita þau til foreldra eftir stuðningi. Foreldrar geta haft áhrif á hvaða skilning barnið leggur í aðstæður og hvernig það tekst á við þær.
Það er von Landspítala að fræðsluefnið komi sem flestum að gagni.
Aðferðir til að draga úr verkjum og kvíða barna fyrir inngrip