Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni fögnuðum við með formlegum hætti því að jáeindaskanninn er kominn í notkun á Landspítala. Hér eru mikil tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu og er þar fyrir að þakka rausnarskap Kára Stefánssonar og síðan öflugu starfsfólki Landspítala sem unnið hefur að verkefninu undanfarin ár. Við sjáum fram á mikla notkun skannans á næstu árum og mun fjöldi sjúklinga njóta góðs af, enda gerum við ráð fyrir um 100 rannsóknum á mánuði. Áður þurftu sjúklingar að fara til Kaupmannahafnar til rannsókna í jáeindaskanna en með því að færa rannsóknirnar heim er unnt að veita fleirum þjónustu og sérstaklega sjúklingum sem ekki eru færir um að ferðast til annarra landa. Með jáeindaskannanum færist íslensk heilbrigðisjónusta á nýtt stig, bæði hvað varðar meðferð sjúklinga og möguleika til rannsókna og vísindastarfs. Það er því full ástæða til að fagna - til hamingju öll!
Nánar hér í texta og myndskeiði
Allir landsmenn verða sjálfkrafa líffæragjafar frá og með nýársdegi 2019 í samræmi við ný lög sem þá taka gildi og fjalla um brottnám líffæra og ætlað samþykki. Málefnið er brýnt þar sem við getum bjargað lífi annarra með því að gefa þeim líffæri. Í öðrum tilvikum getum við lengt ævi fólks og bætt heilsu þess og líðan með líffæragjöf. Við tölum um að líffæri séu„ gefin“ þegar hjarta, lungu, lifur, nýru, bris eða þarmar eru fjarlægð úr látnu fólki og grædd í sjúklinga sem búa við að líffæri þeirra séu alvarlega biluð og starfi takmarkað eða alls ekki. Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga. Í stöku tilvikum er líka hluti lifrar í lifandi gjafa notaður til ígræðslu. Einnig má nefna að bæta má sjón sjónskertra með því að græða í þá hornhimnu látins fólks. Embætti landlæknis og Landspítali héldu opinn fund um málið í Hringsal spítalans mánudaginn 10. desember. Það var Alma D. Möller landlæknir sem kynnti verkefnið í upphafi fundar en framsögumenn voru læknarnir Jóhann Jónsson, Kristinn Sigvaldason og Runólfur Pálsson sem allir eru þrautreyndir á þessu sviði. Sú nýbreytni var höfð á að fundurinn var í beinni útsendingu á samfélagsmiðlunum Facebook og Workplace og þannig bættust við þúsundir áhorfenda við nokkra tugi fundargesta þennan dag.
Sjá myndskeið
Að endingu langar mig til að nefna að í gær var opnaður nýr innri vefur Landspítala og voru það langþráð tímamót. Stærsta breytingin felst í einfaldara skipulagi og betra viðmóti fyrir notendur auk þess sem vefurinn er skalanlegur fyrir snjalltæki. Þá má nefna öfluga leitarvél, sem margir hafa saknað, sem og betra aðgengi að þeim gögnum og kerfum sem við mörg vinnum daglega með. Breytingin er unnin af samskiptadeild spítalans sem hefur átt þétt samstarf við tæplega 400 starfsmenn um verkefnið. Þetta stóra verkefni hefur verið mikið þróunarstarf og ég þakka öllum sem að því hafa komið. Gamli innri vefurinn er áfram uppi um sinn, meðan við lærum á hinn nýja. Það má sennilega teljast nokkuð gott, að á einu ári hefur Landspítali nú innleitt samskiptamiðilinn Workplace, hafið stórsókn á samfélagsmiðlinum Facebook, smíðað meðfram þessu nýjan ytri 5.000 síðna vef og nú opnað nýjan innri vef, sem á eru um 50.000 síður. Til hamingju með þetta allt saman!
Góða helgi!
Páll Matthíasson