Móttökustandar fyrir innritun skjólstæðinga voru formlega teknir í notkun á tveimur deildum á Landspítala Fossvogi í desember 2018.
Þann 1. desember var opnað fyrir móttökustand á bráðadagdeild C2 þegar sú deild var opnuð og 7. desember var móttökustandur tekinn í notkun á sameinaðri dagdeild á B7.
Þegar skjólstæðingar mæta í bókaðan tíma á þessar deildir skrá þeir sig inn sjálfir með því að slá inn kennitölu og svara spurningum varðandi smitgát og ofnæmi. Við innskráningu merkjast þeir sjálfkrafa mættir í sjúkraskrárkerfið Sögu og fá leiðbeiningar á móttökustandinum um hvert þeir eiga að fara, t.d. á hvaða biðstofu. Skjólstæðingar þurfa þá ekki þurfa að gefa sig fram við móttökuritara þegar þeir mæta. Þessu kerfi er ætlað að skila mikilli hagræðingu og þægindum bæði fyrir starfsfólk Landspítala og skjólstæðinga.