Anna Björg Jónsdóttir hefur verið ráðin yfirlæknir dag-, göngu- og samfélagsdeildar á Landspítala Landakoti.
Anna Björg lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands í júlí 2001. Hún fékk almennt lækningaleyfi á Íslandi og Danmörku árið 2002 og sérfræðileyfi í öldrunarlækningum á Íslandi og Danmörku í febrúar 2013. Anna Björg hefur einnig lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu.
Anna Björg hefur gegnt stundakennslu við Háskóla Íslands, komið að skipulagningu framhaldsnáms lækna í lyf- og öldrunarlækningum á Landspítala og var einn af kennslustjórum sérnáms í lyflækningum á Landspítala frá 2013 til mars 2018. Anna Björg hefur komið að og stýrt fjölmörgum þróunar- og gæðaverkefnum innan öldrunarþjónustu og verið virkur þátttakandi í nýsköpunarverkefnum auk þess að gegna ýmsum félags- og trúnaðarstörfum hérlendis og erlendis. Í rúmt ár hefur Anna Björg hefur verið leiðandi sérfræðingur á dag-, göngu- og samfélagsdeild á Landakoti. Þar sem nú er verið að auka vægi þeirrar starfsemi innan öldrunarlækninga á Landspítala tekur hún nú við stöðu yfirlæknis til næstu fimm ára.